Innlent

Stjörnugjöf vega

Nú í sumar verður byrjað á að meta vegi landsins og þeim gefnar stjörnur í einkunn eins og bílum og hótelum. Stjörnugjöfin er þegar hafin í um tíu löndum og hefur þegar skilað þeim árangri að vegir hafa verið bættir töluvert. Ólafur Guðmundsson, dómari í Formúlu 1 kappakstri og stjórnarmaður í Félagi íslenskra bifreiðaeigenda, er að fara af stað með verkefnið með FÍB. Þessi stjörnugjöf, sem nefnist EURORAP, hefur verið við lýði í fimm ár í nokkrum löndum og hafa ný lönd verið að bætast í hópinn, nú síðast Bandaríkin og Ástralía. Ólafur segir þetta vegaeftirlit virka þannig að umhverfi veganna er metið og hvaða þættir mannvirkjanna eru að auka hættu, t.d. skilti sem byrgja sýn, grjót, staurar, hátt fall fram af vegum, fjarlægð og vegrið milli akreina o.fl. í þeim dúr. Kerfið hefur skilað miklum árangri í Svíþjóð og á Bretlandi. Á Bretlandi hafa vegirnir verið metnir í annað sinn og eru einnar stjörnu vegir nánst horfnir úr vegakerfinu. FÍB rekur verkefnið og eru þeir að kynna verkefnið fyrir samgönguráðuneytinu, Umferðarstofu og Vegagerðinni. í von um samvinnu. Ólafur segir markmiðið „fimm stjörnu bílar á fimm stjörnu vegum“, þ.e: öruggari umferð. Stefnt er að því að kort verði gefinu út með stjörnugjöf vega, auk þess sem hægt verður að nálgast hana á netinu. Sérútbúinn bíll með sérstökum tölvubúnaði verður notaður við að meta ástand veganna en oft þarf litlar breytingar til að fá ágætis einkunn.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×