Innlent

Líst vel á hugmynd um óperuhús

Gunnar I. Birgisson, bæjarstjóri í Kópavogi, hefur varpað fram þeirri hugmynd að óperuhús verði reist á menningartorfunni í Kópavogi og telur að hún geti orðið fullbúin innan örfárra ára, ef drifið verði í málinu. Á menningartorfunni eru nú Gerðarsafn, Salurinn, bókasafnið og Náttúrugripasafnið. Gunnar segir að nóg pláss sé á torfunni fyrir 2.500 metra óperuhús sem geti tekið allt að 700 manns í sæti og gæti kostað um tvo milljarða króna. Hann hefur ekki kynnt hugmyndina fyrir bæjaryfirvöldum að svo komnu en hann telur að ríkið og Kópavogsbær eigi að koma að uppbyggingunni og að andvirði af sölu Óperuhússins við Ingólfsstræti eigi að renna upp í byggingarkostnað. Hann sér engin tormerki á að drífa málið áfram, ef vilji er fyrir hendi. Nafni hans, Gunnar Guðbjörnsson óperusöngvari, er mikill áhugamaður um uppbyggingu óperuhúss og hefur beitt sér eftir föngum að framgangi þess máls. Honum líst vel á hugmyndina enda segist hann sjálfur hafa lagt áherslu á að reyna að tengja listgreinar, og m.a. sviðslistgreinarnar, þ.á m. í tónlistarhúsinu í Reykjavík sem fyrirhugað er. Ekki virðist þó vera áhugi fyrir því að sögn Gunnars. Hann segir að í sjálfu sér skipti ekki máli hvar þetta verði en hagkvæmast væri að hafa alla vega óperuna og Sinfóníuhljómsveit Íslands í sama húsi. Einnig má sjá viðbrögð Jóns Karls Ólafssonar, varaformanns stjórnar Íslensku óperunnar, við hugmyndinni með því að smella á myndhlekkinn hér að neðan.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×