Innlent

Ríkið gekk á bak orða sinna

Komuverslun fríhafnarinnar á Keflavíkurflugvelli hefur verið stækkuð um meira en helming, frá 460 fermetrum upp í rúma þúsund fermetra. Samtökum verslunar og þjónustu þykir utanríkisráðuneytið hafa gengið á bak orða sinna með því að samþykkja að stækka rekstur sem er í samkeppni við einkaaðila. Sigurður Jónsson framkvæmdastjóri samtakanna segir alla stjórnmálafloka hafa verið spurða að því fyrir síðustu kosningar hvort ríkið ætli sér að vera áfram í smásölusamkeppnisrekstri. Allir flokkar svöruðu því til að draga bæri saman rekstur komuverslunarinnar. Hann segir það skjóta skökku við að ríkisfyrirtæki sé í samkeppni um sölu á snyrtivörum, sælgæti, raftækjum og öðru því sem kaupa má í fríhöfninni. Aðspurður hvort það sé ekki hagur neytenda að úrval og aðgengi sé gott í fríhöfninni segir Sigurður að ef svo væri hlyti þá líka að vera hagur neytenda ef ríkið sæi þá bara um það sjálft að reka almennar neysluvöruverslanir, því sé um tvískinnung að ræða. Hann segir það skoðun SVÞ að ríkið eigi að einskorða sig við rekstur sem er þess eðlis að hann sé ekki í beinni samkeppni við einkaaðila. Sturla Eðvarsson framkvæmdastjóri Fríhafnarinnar ehf. blæs á gagnrýni Samtaka verslunar og þjónustu. "Við erum fyrst og fremst í samkeppni við aðrar brottfararverslanir á erlendum flugvöllum", segir Sturla. Hann segir það hafa verið nauðsynlegt að stækka komuverslunina enda hafi svo verið komið að á álagstímum hafi fólk hreinlega ekki komist inn í verslunina. Hann segir Fríhöfnina aldrei hafa verið í samkeppni við innlendar verslanir og aldrei hafa auglýst á innanlandsmarkaði. Aðspurður um auglýsingu sem birtist fyrir jólin þar sem iPod hljómflutningstæki voru auglýst á lægra verði í Fríhöfninni segir hann þá auglýsingu ekki hafa verið frá Fríhöfninni komna.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×