Innlent

Vel tekið í óperuhús í Kópavogi

Bjarni Daníelsson óperustjóri Íslensku óperunnar tekur vel í hugmynd Gunnars Birgissonar bæjarstjóra Kópavogs um að reisa óperuhús í Kópavogi. "Mér finnst þetta góð hugmynd, bæði er gott að hún skuli koma fram sem innlegg í umræðuna og svo finnst mér hún bara algjörlega óvitlaus. Það sem okkur dreymir um er auðvitað vinnuaðstaða fyrir óperuna og aðrar greinar tónlistarleikhúss en ekki það að geta hlaupið inn í einhvern fjölnotasal við og við," segir Bjarni. Hingað til hefur umræðan um Óperuna snúist um aðstöðu hennar í væntanlegu tónlistarhúsi í Reykjavík en ekki er gert ráð fyrir að húsið verði sérhannað fyrir Óperuna. Gunnar Birgisson hefur látið vinna frumteikningar að óperuhúsi en hugmyndin hefur hvorki verið lögð fyrir bæjarstjórn né Íslensku óperuna. "Mér finnst þetta kristalla það og draga skarplega fram hvað Kópavogur er framarlega í menningarmálum," segir Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra um hugmynd Gunnars. Hún segir að í ágúst verði valinn hönnuður að tónlistarhúsi og þá fari línur að skírast. "Það hefur verið tekið tillit til óska óperuunnenda og kröfunum breytt í samræmi við það. Það á að vera hægt að flytja óperur með frambærilegum hætti í húsinu," segir Þorgerður. Hún bendir á að Íslenska óperan fái einungis styrki frá ríkinu og sé ekki ríkisstofnun og því ekki sjálfgefið að ríkisvaldið taki þátt í rekstri óperuhúss. "Við munum vera tilbúin til að skoða þetta og velta fyrir okkur tölunum," segir Jón Karl Ólafsson varaformaður stjórnar Íslensku óperunnar. Júlíus Vífill Ingvarsson, stjórnarmeðlimur, tekur undir með Jón Karli og fagnar athyglinni sem Gunnar veiti þessu máli. "Það er tímabært að það komi fram á opinberum vettvangi viðbrögð við nauðsyn þess að skapa þessari listgrein umgjörð til framtíðar sem henni sæmir," segir Júlíus. -rsg



Fleiri fréttir

Sjá meira


×