Innlent

Fjársvikafyrirtæki hóta fólki

Þess eru dæmi, að erlend auglýsingasvikafyrirtæki hringi í forsvarsmenn íslenskra fyrirtækja heim að kvöldlagi og hóti þeim öllu illu ef þeir greiði ekki fyrir veitta "þjónustu." Starfsemi erlendu fjárplógsfyrirtækjanna snýst um að fá fyrirtæki til að samþykkja skráningu í gagnabanka, að því er virðist án endurgjalds. Í smáu letri sem fylgir skilmálum er hins vegar kveðið á um að greiða þurfi háar fjárhæðir fyrir skráninguna. Reikningar upp á 70 þúsund krónur, sem er algeng upphæð, koma því forráðamönnum fyrirtækja í opna skjöldu. Þetta segir Sigurður Jónsson framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu. SVÞ hafa nú varað sérstaklega við þessum svikafyrirtækjum, sem einkum láta til sín taka á vorin og sumrin. Sigurður segir, að svo virðist sem þeir sem stunda þessa iðju telji að auðveldara sé að villa um fyrir sumarafleysingafólki heldur en starfsmönnum sem hafa meiri reynslu. Svikararnir beiti sífellt nýjum aðferðum svo erfitt er að varst þá. "Við höfum fengið fjölmargar ábendingar og beiðnir um aðstoð undanfarnar vikur frá Íslendingum sem hafa lent í klóm fyrirtækja sem stunda fjárplógsstarfsemi," segir Sigurður og bætir við að mest sé kvartað undan skráningarfyrirtækinu European City Guide. "Ef reikningar frá þessu fyrirtæki eru ekki greiddir er skuldurum hótað hörðum innheimtuaðgerðum og ærnum viðbótarkostnaði. SVÞ ráðleggja fyrirtækjum að greiða ekki slíka reikninga nema þau telji sig hafa efnt til skuldanna," bætir hann við. European City Guide er skráð á Spáni. Það er fyrirtækið Silver Stone Management einnig, sem sérhæfir sig í því að svíkja út fjármuni með því að bjóða mikla ávöxtun peninga með lítilli fyrirhöfn og telja Íslendingum trú um að nú sé tækifærið til að hagnast á sterkri stöðu krónunnar. SVÞ hafa fengið kvörtun frá aðila sem lagði inn þúsundir bandaríkjadala á bankareikning fyrirtækisins í von um skjótfenginn gróða en peningarnir hurfu fljótt og ekki hefur enn náðst í fulltrúa fyrirtækisins, sem áður var svo vinsamlegur og hjálpfús í símtölum og bréfasendingum, að sögn Sigurðar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×