Innlent

Grænt ljós á tökur í Krýsuvík

Í gær var samþykkt á fundi skipulags- og byggingaráðs í Hafnarfirði að leyfa tökur á myndinni Flags of our fathers í Krýsuvík.  "Það var afgreitt einhljóma að gefa leyfi fyrir myndatökunni með þeim skilyrðum um framkvæmd og frágang eins og sett eru fram í samningi bæjarins. Bæjaryfirvöld hafa afgreitt málið og það er enginn ágreiningur lengur um þá afgreiðslu," segir Lúðvík Geirsson bæjarstjóri í Hafnarfirði. Umhverfisnefnd bæjarins og stjórn Reykjanesfólkvangs hefur gagnrýnt áform leikstjórans Clint Eastwoods um tökur í Krýsuvík. "Mér finnst þetta sorgleg niðurstaða. Mér finnst það sorglegt að ráðamenn í svona stóru bæjarfélagið hafi ekki meiri skilning á náttúruvernd. Miðað við umfangið á þessu hef ég enga trú á að það takist að koma þessu í samt lag," segir Kristján Bersi Ólafsson úr Umhverfisnefnd Hafnarfjarðar. Á mánudag kynntu umsækjendur leyfisins verkefnið á fundi með þeim sem sáu um ákvarðanatöku og umsagnir í málinu og fluttu fulltrúar Fornleifaverndar ríkisins, Umhverfisstofnunar og Landgræðslu ríkisins mat sitt á myndatökunni í Krýsuvík sem var jákvætt. Í framhaldi af því var leyfið samþykkt í gær en í fundargerð fundarins er það tekið fram að "uppgræðsla verði á þann máta sem Hafnarfjarðarbær, Umhverfisstofnun og Landgræðslan sem er umsjónaraðili með uppgræðslu á svæðinu hafa sett skilyrði um, svo landgæði verði jafngóð eða betri en áður." Eitthvað af tökuliði myndarinnar er komið til landsins svo búast má við að undirbúningur fyrir tökurnar hefjist fljótlega. - rsg



Fleiri fréttir

Sjá meira


×