Innlent

Mótmælin hefjast fyrir alvöru

Mótmælin við Kárahnjúka virðast loksins vera að hefjast fyrir alvöru og síðasta leyfið fyrir tjaldbúðum ætti að liggja fyrir síðar í dag. Einn skipuleggjenda mótmælanna, Birgitta Jónsdóttir, sem er ekki enn farin austur, segist búast við tuttugu manna hópi á svæðið í dag og á morgun. Þegar síðast fréttist voru mótmælin enn ekki farin af stað fyrir alvöru og aðeins tvö tjöld uppi. Birgitta segist fastlega gera ráð fyrir að síðasta leyfið fyrir tjaldbúðunum fáist frá landeigendum þegar líða tekur á daginn. Mótmælendurnir hafa þegar fengið leyfi fyrir búðunum frá Egilstaðahéraði og í gær fengu þeir leyfi fyrir að setja upp útikamar við svæðið. En þó að kamarinn sé risinn, segir Birgitta að þeir sem ætli sér að taka þátt í mótmælunum ættu ekki að búast við að fá þjónustu, enda snúist mótmælin ekki um þægindi, heldur verndun landsins sem mótmælendurnir elski. Birgitta segist eiga von á því að mótmælin muni næstu daga litast mjög af listrænum tilburðum, enda sé von á mörgum listamönnum á svæðið, bæði tónlistar og myndlistarfólki. Þar sem ekki sé um eiginlega hátíð að ræða, megi hins vegar ekki auglýsa atburðina og því verði þeir sem hafi áhuga einfaldlega að mæta á svæðið og sjá hvað verður í boði. Að sögn lögreglunnar á Egilsstöðum er hópur mótmælenda enn mjög fámennur og hefur ekki stækkað undanfarinn sólarhring. Lögreglan segir mótmælendur hafa haft hægt um sig hingað til og allt hafi gengið vel fyrir sig.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×