Innlent

Bjórframleiðsla að hefjast?

Undirbúningi bjórframleiðslu í Skagafirði hefur miðað vel áleiðis og er stefnt að því að bjórframleiðsla hefjist þar í haust. Viðskipta- og rekstraráætlun liggur fyrir og verður kynningarbæklingur sendur til fjárfesta í febrúar. Gert er ráð fyrir að 145 milljónir þurfi til að koma brugghúsinu í gang, 95 milljónir í hlutafé sem skipt verður milli einstaklinga og fagfjárfesta og 50 milljónir í lánum. Leitað hefur verið tilboða í vélar, tæki, flutninga og hráefni. Vilhjálmur Baldursson, stjórnarformaður Brugghússins ehf., segir að stefnt sé að því að ná sjö prósentum af íslenska markaðnum. Markaðurinn í heild veltir um 1,6 milljörðum króna. 65 prósent þeirrar upphæðar eru innlend framleiðsla og afgangurinn innflutningur og er því stefnt að veltu upp á 112-115 milljónir króna. Uppskrift að bjórnum liggur ekki fyrir en vonast er eftir samstarfi við lítil brugghús á Norðurlöndunum; í Noregi, Danmörku eða jafnvel 100 ára gamalt brugghús í Færeyjum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×