Lífið

Yngsta íslenska leikskáldið

Það er kominn föstudagur og Fókus fylgir DV í dag. Blaðið er að venju pakkað af skemmtilegu efni. Kallarnir.is ætla að taka tónlistarheiminn með trompi, Kata pistlahöfundur segir frá klaufasögum í kynlífi og fókus býður í bíó á Team America. Forsíðuna prýðir Þórdís Elva sem þýddi Ég er ekki hommi og er líka yngsta leikskáld Íslands.  Þórdís Elva Þorvaldsdóttir Bachman fæddist á Íslandi 1980 en ólst einnig upp í Svíþjóð og Ameríku. Árið 2001 fór hún ein til Ameríku og kláraði háskólanám þar. Hún hefur þó alið manninn mest í Breiðholtinu og útskrifaðist af myndlistarbraut FB.                               "Mamma er grafískur hönnuður og fór með mig á hin ýmsu söfn út um alla Evrópu þegar ég var barn. Ég fékk því myndlistina beint í æð og hafði mikinn áhuga á henni. Ég ákvað því að láta á það reyna að fara á myndlistarbraut en flæktist um leið í leiklistarlífið og lék aðalhlutverk í söngleikjunum Bat Out of Hell og Með fullri reisn í Loftkastalanum, sem var óvænt hit." Ræddi heimsyfirráð við Michael Stipe Þórdís dúxaði í FB og fékk Rótarý-styrk í kjölfar þess. "Þessi styrkur er bundinn við Georgíu-fylki í Ameríku. Maður kemst inn í háskóla þar en ræður ekki hvern. Ég var mjög heppin og var send í stærsta skólann í Georgíu sem heitir UGA en í honum eru 35 þúsund manns." Þaðan útskrifaðist Þórdís með BA-gráðu í leiklist. Hún segir það vera mikla upplifun fyrir Íslending að koma í svona umhverfi. "Þetta var ótrúlega skemmtilegur tími og ég tel mig hafa mótast mjög mikið af þessu. Þetta er líka mikill tónlistarbær. Meðal annarra búa meðlimir hljómsveitarinnar REM þarna. Ég lenti oftar en einu sinni í partýjum með Michael Stipe og við töluðum um heimsyfirráð, pólitík og tónlist." Maður verður að skapa sín eigin tækifæri Svo kom Þórdís heim og fékk ekkert að gera. "Málið er að fólk sem lærir úti á rosalega erfitt uppdráttar þegar það kemur heim. Það er ekkert stuðningskerfi fyrir mann, það er til dæmis engin umboðsskrifstofa sem er hægt að leita til. Þeir sem fara í LHÍ eru í rauninni í stanslausri kynningu í fjögur ár. Flestallir leikstjórar og fólk innan bransans fer í Nemendaleikhúsið, kynnir sér fólkið og fylgist með þeim þróast sem leikarar. Svo þegar þau útskrifast eru þau komin með mjög sterk tengsl inn í bransann. Þetta er náttúrulega mjög lítill bransi og auðvitað vill fólk frekar vinna með einhverjum sem það treystir. Ég er ekki að áfellast neinn en auðvitað getur þetta verið mjög erfitt."                     Það var Þórdísi hins vegar í hag að kærastinn hennar, Guðmundur Ingi Þorvaldsson, er leikari og inni í bransanum. Hún gat því flotið svolítið með honum. "En maður verður náttúrulega að skapa sér sín eigin tækifæri. Ég ákvað því að taka þetta í mínar eigin hendur." Afganginn af viðtalinu ásamt djammkortinu, væntanlegum plötum og barnaóperu er að finna í Fókus sem fylgir DV í dag.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.