Innlent

Rukkað fyrir hagsmunagæslu

Neytendasamtökunum hafa borist fjölmargar kvartanir yfir framgangi fasteignasala við innheimtu umsýslugjalda. Hafa samtökin nú sent erindi til Samkeppnisstofnunar og óskað eftir að viðskiptahættir fasteignasala í þessu sambandi verði skoðaðir. Neytendablaðið greinir frá því að á undanförnum árum hafi fasteignasalar krafist þess í vaxandi mæli að kaupendur fasteigna greiði sér fast gjald, svokallaða umsýsluþóknun. Þar segir að samtökin efist ekki um heimild fasteignasala til að innheimta umsýslugjöld í ákveðnum tilvikum en sett er út á þá viðskiptahætti sem tíðkist við innheimtu gjaldanna. Til að mynda sé fjarstæða að fasteignasalar einir geti þinglýst skjölum vegna fasteignaviðskipta. Þá er ekki fallist á þau rök að fasteignasölum sé heimilt að leggja sérstakt gjald á kaupendur vegna hagsmunagæslu. Sú hagsmunagæsla eigi að vera innifalin í söluþóknun sem seljandi innir af hendi. Grétar Jónasson, framkvæmdastjóri Félags fasteignasala, segir lýsingar Neytendasamtakanna villandi. Hann segir að í lögum um sölu fasteigna séu margvísleg ákvæði sem hafi að geyma skyldur fasteignasala gagnvart kaupendum í gegnum allt fasteignasöluferlið. Grétar segir alls ekki rétt að kaupendur megi þinglýsa gögnum sjálfir. Fasteingasalinn beri ábyrgð á gögnunum þegar þau séu komin til hans og á því að þau skili sér til sýslumanns. Ef þau glatist sé það á ábyrgð hans. Það væri því glapræði ef hann léti kaupanda fara út með gögnin og þau myndu ekki skila sér í þinglýsingu. Grétar segir að fasteignasalar séu orðið meira meðvitaðir um hve rík ábyrgð liggi að baki því að vinna fyrir kaupendur og sé það ástæða þess að umsýslugjöld hafi hækkað. Þá bendir hann á að ef fasteignasali þyrfti ekki að gæta hagsmuna kaupanda heldur eingöngu seljanda, eins og víða erlendis, þyrfti kaupandi alla jafna að vera með lögmann sér við hlið, sem væri kostnaðarsamt. Grétar hefur ekki áhyggjur af niðurstöðu samkeppnisyfirvalda.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×