Erlent

Hjálpargögn berast til Nias-eyju

Flugvélar með hjálpargögn eru komnar til Nias-eyja við Indónesíu en þar er talið að þúsund manns hið minnsta hafi farist í öflugum jarðskjálfta í gærdag. Skjálftinn var stærri en fyrst var talið en það var lán í óláni að þessi skjálfti varð á grunnsævi og því myndaðist ekki flóðbylgja. Yfirvöld á Indónesíu óttast að endanleg tala þeirra sem týndu lífi geti skipt þúsundum. Skjálftinn reyndist mun öflugri en skjálftamælar gáfu fyrst til kynna, eða 8,7 á Richter en ekki 8,2 eins og fyrst var talið. Nias-eyjaklasinn er nærri Súmötru og upptök skjálftans í gær voru nærri upptökum skjálftans sem olli gríðarlegri flóðbylgju annan dag jóla en í þetta skipti myndaðist engin flóðbylgja. Steinunn Jakobsdóttir, jarðeðlisfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, segir skjálftann hafa orðið á sprungu sem sé um 300-500 kílómetra löng en skjálftinn um jólin hafi verið á um 1200 kílómetra sprungu. Skjálftinn í gær sé um tíu sinnum minni en skjálftinn á annan dag jóla. Aðspurð af hverju flóðbylgja hafi ekki myndast eftir skjálftann í gær segir Steinunn að munurinn á skjálftunum tveimur sé sá að skjálftinn í gær hafi orðið á grunnsævi og því sé ekki sá massi fyrir hendi sem þurfi til að mynda flóðbylgju á sama hátt og gerðist á Indlandshafi fyrir um þremur mánuðum. Vatnsmassin sem liggi ofan á jörðinni og hreyfist upp sé svo lítill að ekki geti myndast jafnstór flóðbylgja og á opnu hafi þar sem massinn sé mikill. Steinunn segir enn fremur að skjálftinn hafi verið opnari við úthafinu þannig að sá vatnsmassi sem hugsanlega hafi farið af stað hafi sennilega týnst í hafinu. Skelfing greip um sig þegar fólk varð skjálftans vart í gærdag þó að hann yrði um hánótt að staðartíma. Tugir þúsunda flýðu í ofboði upp á land frá strandhéruðum og á Taílandi forðuðu ferðamenn sér í snatri frá strandhótelum. Yfirvöld þar, á Srí Lanka og Indlandi gáfu flóðbylgjuviðvaranir og skipuðu fólki upp á land í varúðarskyni. Áströlsk yfirvöld mældu örsmáar flóðbylgjur á Cocos-eyjum, sú fyrri var tíu sentímetrar og sú síðari 25. Hjálpargögn eru þegar á leið til Nias-eyja en vont veður og tjón sem varð á flugvellinum hefur þó hamlað hjálparaðgerðum. Þrjár flugvélar hafa þó þegar lent á eyjaklasanum og sjónarvottar segja að þar sé gríðarmikið tjón.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×