Erlent

Á annað þúsund manns taldir látnir

Nú er talið víst að á annað þúsund manns hafi farist þegar öflugur jarðskjálfti skók Súmötru í gær. Yfirvöld í Indónesíu óttast að endanleg tala þeirra sem týndu lífi gæti verið hærri. Fjögurra Svía er saknað eftir skjálftann sem reyndist mun öflugri en skjálftamælar gáfu fyrst til kynna, eða 8,7 á Richter en ekki 8,2. Verst er ástandið á eynni Nias þar sem vont veður hamlar björgunarstarfi. Þar hafa hús hrunið og fólk hefur ekkert skjól. Upptök skjálftans í gær voru mjög nærri upptökum skjálftans sem olli gríðarlegri flóðbylgju annan dag jóla en í þetta skipti myndaðist engin flóðbylgja. Skelfing braust út þegar fólk varð vart skjálftans í gærdag þó að hann yrði um hánótt að staðartíma. Tugir þúsunda flýðu í ofboði upp á land frá strandhéruðum og á Taílandi forðuðu ferðamenn sér í snatri frá strandhótelum. Yfirvöld þar, á Srí Lanka og Indlandi gáfu flóðbylgjuviðvaranir og skipuðu fólki upp á land í varúðarskyni. Áströlsk yfirvöld mældu örsmáar flóðbylgjur á Cocos-eyjum, sú fyrri var tíu sentímetrar og sú síðari 25.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×