Innlent

Forskot Fréttablaðsins eykst

Fréttablaðið eykur forskot sitt sem vinsælasti fjölmiðill landsins, samkvæmt nýrri fjölmiðlakönnun Gallup. Tíu prósent fleiri lesa Fréttablaðið daglega en horfa á Ríkisjónvarpið á hverjum degi. Um er að ræða dagbókarkönnun á áhorfi á sjónvarp og lestri dagblaða, tímarita, netmiðla og umhverfismiðla. Könnunin var gerð dagana 7. til 13. apríl síðastliðinn. Í könnuninni kemur fram að daglega lesa 66 prósent landsmanna Fréttablaðið að meðaltali, 60 prósent stilla á Ríkissjónvarpið, 55 prósent horfa á Stöð tvö, 52 prósent lesa Morgunblaðið, 35 prósent horfa á Skjá einn og nítján prósent lesa DV. Í könnuninni kemur fram að ríkisfjölmiðlarnir njóta mests trausts, en traust til Fréttablaðsins eykst frá sama tíma í fyrra. Að öðru leyti eru litlar breytingar á stöðunni á fjölmiðlamarkaði frá því á sama tíma í fyrra. v



Fleiri fréttir

Sjá meira


×