Erlent

Svartsýni er ríkjandi fyrir ráðherrafundinn

Hnattvæðingu andæft. Strax í fyrradag hafði verið efnt til mótmæla í Hong Kong. Mótmælendurnir segja viðræður WTO fara fram á forsendum ríku þjóðanna og stórfyrirtækja.
Hnattvæðingu andæft. Strax í fyrradag hafði verið efnt til mótmæla í Hong Kong. Mótmælendurnir segja viðræður WTO fara fram á forsendum ríku þjóðanna og stórfyrirtækja.

Þrátt fyrir fögur fyrirheit virðast Vesturlönd ekki ætla að greiða fyrir útflutningi þróunarlanda með því að draga úr niðurgreiðslum á sinni eigin framleiðslu. Því er lítil von til að árangur í þá átt náist á ráðherrafundi Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar WTO sem hefst í Hong Kong í dag.

Sendinefndir 149 aðildarríkja WTO eru samankomnar í Hong Kong en þar var ætlunin að leiða til lykta svokallaða Doha-samningalotu stofnunarinnar sem hófst í höfuðborg Katar fyrir fjórum árum og átti meðal annars að stórbæta aðgang þróunarlanda að mörkuðum á Vesturlöndum fyrir afurðir sínar. Fátækari þjóðir hafa einkum barist fyrir að Bandaríkin, Evrópusambandið og Japan hætti að niðurgreiða framleiðslu sína á ýmsum vörum, sérstaklega landbúnaðarafurðum, en þær nema tuttugu þúsund milljörðum króna á ári, 24-faldri árlegri þjóðar­framleiðslu Íslendinga.

Peter Mandelson, yfirmaður viðskiptamála í framkvæmdastjórn ESB, lét þau orð hins vegar falla í gær að árangur af viðræðum væri "ekki mögulegur" nema þróunarlöndin afnæmu sjálf tollamúra sína fyrir framleiðslu annarra ríkja. Celso Amorim, utanríkisráðherra Brasilíu, sagði því á blaðamannafundi í Hong Kong að einungis kraftaverk dygði til að samkomulag næðist. Að sögn breska blaðsins In­dependent hafði Mandelson sjálfur reyndar ljáð máls á að draga úr niðurgreiðslum ESB en frönsk stjórnvöld brugðust þá ókvæða við og sögðu hann ekkert umboð hafa til slíks. Í sárabætur hyggjast ESB og nokkur önnur ríki bjóða 32 fátækustu aðildarríkjum WTO tollfrjálsan aðgang að mörkuðum sínum.

Fulltrúar nokkurra af stærstu viðskiptablokkum heims notuðu jafnframt tækifærið í gær og hittust á leynilegum fundum og skeggræddu viðskipti sín á milli. Að venju er búist við kröftugum mótmælum vegna WTO-fundarins en rúmur tugur þúsunda andstæðinga hnattvæðingar hyggst láta til sín taka á götum Hong Kong á meðan hann fer fram. Þar á meðal er stór hópur frá Suður-Kóreu sem þekktur er fyrir róttækar baráttuaðferðir, meðal annars sjálfsmorð, til að vekja athygli á málstað sínum. Því viðhefur lögregla í Hong Kong mikinn viðbúnað þessa dagana.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×