Innlent

Aukin misskipting á 10 árum

Einar Már Sigurðarson situr í fjárlaganefnd
Einar Már Sigurðarson situr í fjárlaganefnd

Þingmenn Samfylkingarinnar í minnihluta fjárlaganefndar ­leggja til að tekjuafgangur ríkissjóðs verði tæpir 24 milljarðar króna í stað tæplega 20 milljarða eins og meirihluti nefndarinnar leggur til.

Þeir leggja til að svigrúm það sem ríkisstjórnin telur til skattalækkana verði notað til að lækka matarskatt og hækka persónuafslátt. Þá leggja nefndarmennirnir fram tillögur um sparnað í ríkisrekstri og breyttar áherslur. Þær fela meðal annars í sér aukin framlög til mennta-, velferðar- og byggðamála eða sem nemur 3,5 milljörðum króna. Fulltrúar vinstri ­grænna­­ í fjárlaganefnd segja væntingar ríkisstjórnarinnar vera í takmörkuðum takti við raunveruleikann.

Ruðningsáhrif stóriðjustefnunnar væru mikil og skattastefnan þjónaði fremur hátekjufólki en hinum sem minna hafa. Í máli Jóns Bjarnasonar, þingmanns vinstri­ grænna­ kom fram að á viðurkenndan mælikvarða hefði misskipting aukist um þriðjung frá árinu 1995.

Stjórnarandstæðinar gagnrýndu harðlega fjarveru fimm ráðherra í upphafi annarrar umræðu um fjárlagafrumvarpið í gær. Þeir beindu spjótum sérstaklega að Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur menntamálaráðherra sem stödd er í opinberum erindagjörðum í Senegal og kemur aftur til til starfa 5. desember næstkomandi.

Umræður um fjárlagafrumvarpið stóðu langt fram á kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×