Innlent

Ríkið í ábyrgð segir forsætisráðherra

Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra tekur af öll tvímæli um að Íbúðalánasjóður njóti ríkisábyrgðar.
Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra tekur af öll tvímæli um að Íbúðalánasjóður njóti ríkisábyrgðar.

Stjórnvöld taka af öll tvímæli um að lántökur Íbúðalánasjóðs njóta ríkisábyrgðar. Haft var eftir starfsmönnum Lánasýslu ríkisins í fréttum NFS í fyrrakvöld að meðan óvissa ríkti um stöðu sjóðsins væri ekki hægt að mæla með frekari ríkisábyrgðum.

"Það hefur engin breyting verið rædd í ríkisstjórn á þessu máli. Það liggur fyrir að ríkissjóður ber ábyrgð á starfsemi Íbúðalánasjóðs," segir Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra.

Í kjölfar áðurgreindrar fréttar sendi Íbúðalánasjóður Árna Magnússyni félagsmálaráðherra og Árna Mathiesen fjármálaráðherra bréf og óskaði eftir skjótum viðbrögðum stjórnvalda við fréttinni og að þau gæfu út skýra yfirlýsingu um stöðu ríkisábyrgða á lántökum sjóðsins.

"Það er alveg klárt að Íbúðalánasjóður stendur styrkum fótum. Þessi ummæli eru engan veginn í samræmi við stefnu ríkisstjórnarinnar," segir Árni Magnússon.

Árni Mathiesen vildi ekki tjá sig um málið í gærkvöldi. Í yfirlýsingu Lánasýslu ríkisins í gærkvöldi er því vísað á bug að starfsmenn stofnunarinnar hafi sagt, að ekki væri hægt að mæla með veitingu á frekari ríkisábyrgðum til Íbúðalánasjóðs meðan óvissa ríkti um stöðu sjóðsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×