Innlent

Lestur Blaðsins dregst saman um tuttugu prósent

"Við erum núna að skoða möguleikann á því að fara með öll tölublöðin í morgundreifingu," segir Karl Garðarsson, ritstjóri Blaðsins. Samkvæmt nýrri könnun IMG Gallup á lestri dagblaðanna blasir við að meðallestur Blaðsins er kominn talsvert niður fyrir mældan lestur þegar Blaðið var nýtt á markaði eða úr 35 prósenta meðallestri landsmanna undir fimmtugu og niður í 29 prósenta lestur hjá sama hópi.

Í millitíðinni náði Blaðið 37 prósenta lestri og fellur því um átta prósentustig frá því í síðustu könnun, eða um rúm tuttugu prósent.

"Fyrsta lestrarkönnunin var gerð þegar Blaðið hafði verið á markaði í um þrjár vikur. Það var ákveðin spenna þá eins og oft er þegar eitthvað er nýtt," segir Karl.

Karl bendir á áberandi mikinn lestur á laugardagsútgáfu Blaðsins og telur að skýringin sé að laugardagsblaðinu er dreift á morgnana.

"Laugardagsblað Morgunblaðsins hefur 48 prósenta lestur á höfuðborgarsvæðinu og Blaðið nær þar 46 prósentum þannig að þar munar ekki miklu," segir Karl.

Hann er ekki fús til þess að upplýsa nánar um hvernig hann ­hyggst­ koma blaðinu öllu í svokallaða morgundreifingu en ljóst má telja að erfitt gæti reynst að nýta þjónustu Íslandspósts til þeirra verka.

"Þetta er hlutur sem við erum ennþá að skoða og höfum verið að fara yfir á undanförnum mánuðum," segir Karl.

Blaðinu er dreift ókeypis í um 80 þúsund eintökum. Til samanburðar við þessa útkomu Blaðsins má benda á að þegar Fréttablaðið hafði verið í dreifingu í svipaðan tíma í ­októ­ber­ 2001, mældist meðallestur þess vera 54 prósent.

Í sömu könnun mælist lestur Fréttablaðsins vera 71 prósent meðal allra landsmanna og hefur þar dvínað um eitt prósentustig frá könnun sem gerð var á svipuðum tíma í fyrra.

Heildarlestur Morgunblaðsins dregst saman um þrjú prósentustig á sama tímabili og situr nú í 51 prósenti þegar litið er til allra aldurshópa.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×