Innlent

Lífeyrisþegar bera ábyrgðina

Lífeyrisþegar geta ráðið öllu um hvort þeir fá þær bætur sem þeim ber með því að veita Tryggingastofnun réttar upplýsingar um breytingar á fjárhag.
Lífeyrisþegar geta ráðið öllu um hvort þeir fá þær bætur sem þeim ber með því að veita Tryggingastofnun réttar upplýsingar um breytingar á fjárhag.

Lífeyrisþegar bera sjálfir ábyrgð á því að Tryggingastofnun hafi réttar forsendur til útreiknings bóta á hverjum tíma. Þetta kemur fram í greinargerð sem TR hefur sent frá sér vegna þeirrar umræðu sem uppi hefur verið að undanförnu um ofgreiðslur og vangreiðslur bóta til lífeyrisþega.

Fréttablaðið greindi frá því í gær að rúmlega eitt hundrað manna skuldi TR milljón eða meira hver, vegna ofgreiddra bóta sem þeir hafa fengið, langflestir þessa hóps eru öryrkjar. Þessar greiðslur eru afturkræfar leggi viðkomandi fram gögn um að stuðst hafi verið við rangar tekjuupplýsingar.

Í greinargerðinni er undirstrikað að til að auka líkur á því að réttar bótafjárhæðir séu greiddar er sú skylda lögð á herðar lífeyrisþegum að veita Tryggingastofnun allar nauðsynlegar upplýsingar til að hún geti tekið ákvörðun um bótarétt og bótafjárhæðir, svo og um allar breytingar sem verða á yfirstandandi ári. Í því skyni að lágmarka ofgreiðslur eru gildandi tekjuáætlanir sendar með mánaðarlegum greiðsluseðlum til lífeyrisþega.

Í almannatryggingalögum er mælt fyrir um að Tryggingastofnun skuli áætla tekjur lífeyrisþega fyrir hvert almanaksár. Tekju­áætlun Tryggingastofnunar byggir á nýjustu tiltæku tekjuupplýsingum. Stofnunin sendir lífeyrisþegum tekjuáætlunina og gefur þeim kost á að gera athugasemdir við hana.

Á grundvelli áætlunarinnar og breytinga frá lífeyrisþegum eru bætur reiknaðar út fyrirfram fyrir viðkomandi ár. TR undirstrikar að afar mikilvægt sé að lífeyrisþegar láti stofnunina vita ef breytingar verða á fjárhagslegum högum þeirra, þannig að ekki verði um ofgreiðslur eða vangreiðslur til þeirra að ræða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×