Innlent

Nýtt skipafélag stofnað á Akureyri

Hafnarsvæðið á Akureyri. Aðstaða hins nýja skipafélags verður að öllum líkindum á Oddeyrartanga og hafa átt sér stað viðræður þess efnis á milli hafnaryfirvalda á Akureyri og forsvarsmanna nýja skipafélagsins.
Hafnarsvæðið á Akureyri. Aðstaða hins nýja skipafélags verður að öllum líkindum á Oddeyrartanga og hafa átt sér stað viðræður þess efnis á milli hafnaryfirvalda á Akureyri og forsvarsmanna nýja skipafélagsins.

Nýtt íslenskt skipafélag er í burðarliðnum og hyggur félagið á reglulega fragtflutninga á milli Eyjafjarðar og Evrópu snemma á næsta ári. Viðræður við væntanlega fjárfesta standa yfir en Magnús Þór Ásgeirsson, framkvæmdastjóri Atvinnuþróunarfélags Eyjafjarðar, segir fjármögnun langt komna.

"Þar sem eigendahópurinn er ekki fullmótaður er of snemmt að gefa upp hverjir eigendurnir eru en þó get ég sagt að þeir verða bæði norskir og íslenskir. Skipafélagið verður skráð á Íslandi og með höfuðstöðvar á Akureyri en hugsanlegt er að afgreiðslustaðir verði einnig á öðrum þéttbýlisstöðum á Eyjafjarðarsvæðinu," segir Magnús.

Atvinnuþróunarfélag Eyjafjarðar hefur á yfirstandandi ári skoðað leiðir til að lækka flutningskostnað fyrirtækja á Eyjafjarðarsvæðinu og auka þar með samkeppnishæfni þeirra. Niðurstaða atvinnuþróunarfélagsins er að vænlegast sé að koma upp beinum flutningum á milli Norðurlands og helstu markaða í Evrópu, en Magnús segir að um 20 prósent af öllum útflutningi Íslendinga komi frá Eyjafjarðarsvæðinu.

"Með tilkomu skipafélagsins geta fyrirtæki á Eyjafjarðarsvæðinu, sem standa í inn- og útflutningi, lækkað flutningskostnað sinn verulega því ekki verður nauðsynlegt að aka vörum í stórum stíl á milli höfuðborgarsvæðisins og Norðurlands," segir Magnús.

Til að halda stofnkostnaði niðri er gert ráð fyrir að skipafélagið taki á leigu fimm til sex þúsund tonna gámaflutningaskip sem flutt geti á bilinu fjögur til fimmhundruð gáma í senn.

"Til að tryggja lág flutningsgjöld verður kostnaði og yfirbyggingu félagsins haldið í lágmarki en þess þó gætt að félagið hafi fjárhagslega burði til að halda úti skiparekstri með litlum tekjum fyrstu árin.

Áfangastaðir félagsins erlendis verða væntanlega í Bretlandi, Danmörku og Hollandi og til að byrja með verður siglt tvisvar í mánuði á milli allra áfangastaðanna," segir Magnús.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×