Innlent

Ríkið launi nýrnagjöf

Runólfur Pálsson.  Segir að nýrnaígræðsla sem meðferð við nýrnabilun á lokastigi sé mun ódýrari í tímans rás en skilunarmeðferð, sem er blóðhreinsunarmeðferð sem beita verður sé ekki hægt að græða nýtt nýra í sjúklinginn.
Runólfur Pálsson. Segir að nýrnaígræðsla sem meðferð við nýrnabilun á lokastigi sé mun ódýrari í tímans rás en skilunarmeðferð, sem er blóðhreinsunarmeðferð sem beita verður sé ekki hægt að græða nýtt nýra í sjúklinginn.

Ríkið á að greiða lifandi nýrnagjöfum full laun meðan þeir eru frá vinnu vegna nýrnabrottnámsins með þeim hætti að greiðslurnar komi úr almannatryggingakerfinu. Þetta segir Runólfur Pálsson, yfirlæknir nýrnalækninga á Landspítala - háskólasjúkrahúsi. Hann segir að skipan þessara mála sé þannig sums staðar erlendis, til dæmis í Danmörku.

Runólfur segir vinnuveitendur hafa verið afar hjálplega við að hliðra til fyrir starfsmenn sem vilja gefa nýra. "Við erum að tala um lifandi gjafa, fólk sem er í fullu fjöri og er ekki að fara í aðgerð í eigin þágu heldur annars einstaklings. Það er að gefa gríðarlega stóra og mikla gjöf, sem varla er hægt að hugsa sér stærri. Oft er þetta fólk á besta aldri, fyrirvinna sinnar fjölskyldu og ef til vill þannig statt í sínu lífi að það má illa við launamissi.

Eftir aðgerð þar sem nýra er numið brott getur tekið allt frá einum mánuði upp í þrjá fyrir viðkomandi gjafa að ná fullri vinnufærni aftur eftir því hvers eðlis starf hans er." Runólfur segir vinnuveitandanum ekki skylt að greiða viðkomandi full vinnulaun þann tíma sem hann er fjarverandi vegna nýragjafar, þar sem það falli ekki undir veikindarétt samkvæmt skilgreiningu.

"Íslendingar eru með eitt hæsta hlutfall sem þekkist af lifandi nýrnagjöfum, samanborið við látna. Meira en sjötíu prósent nýrna sem grædd hafa verið í Íslendinga síðustu ár hafa komið frá lifandi gjöfum. Á þessu ári hafa ellefu af fjórtán ígræddum nýrum komið frá lifandi gjöfum." Runólfur segir að á undanförnum árum hafi margoft verið rætt við yfirvöld heilbrigðis- og tryggingamála um aðkomu almannatryggingakerfisins að nýrnagjöfum. Menn hafi skilning á þessu þó það hafi ekki komið til framkvæmda. "Mitt mat er að miðað við annað sem við gerum í þessu samfélagi hvað snertir heilbrigðisþjónustu og félagslega þjónustu sé full ástæða til þess að launamissir sé greiddur af sjúkratryggingum. Þetta er mikilvægt mál og við munum áfram sækja það fast."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×