Innlent

Vopnasmyglari með heimasíðu

Jean-Bernard Lausnaud
Jean-Bernard Lausnaud

Jean Bernard Lasnaud hefur verið umsvifamikill vopnasölumaður í fjölda ára. Lasnaud er pólsk­ættaður og þótt hann gangi venjulega undir ofangreindu nafni er skírnarnafn hans Bernard Lasnosky. Líkt og margir sem skipta með vopn er fortíð Lasnauds, sem nú er 63 ára gamall, í meira lagi vafasöm.

Hann er meðal annars sagður hafa selt vopn frá Argentínu til Króatíu þegar stríðið geysaði þar, en einnig til Ekvador og brotið þar með viðskiptabann með vopn til þessara landa. Talið er að hann hafi hagnast um nokkra milljarða á þessum viðskiptum. Þrátt fyrir að hafa verið eftirlýstur af argentínskum stjórnvöldum og Interpol lifði Lasnaud góðu lífi á Flórída.

Bandarísk yfirvöld gerðu lítið sem ekkert til að hafa uppi á honum. Það var ekki fyrr en hann fór til Evrópu árið 2002 sem hann var handtekinn í lest á leiðinni til Genfar og framseldur til Argentínu. Þar var hann í fangelsi þar til hann borgaði tryggingu og flúði landið. Í dag er lítið vitað um Lasnaud en talið er að hann sé í felum í Frakklandi.

Þrátt fyrir að vera eftirlýstur maður er Lasnaud ekki hættur vopnaviðskiptum. Svo ótrúlegt sem það kann að virðast þá heldur hann enn úti heimasíðu (www.carigroup.com) þar sem hægt er að panta allt frá þotuhreyflum í F-16 herþotur til byssukúlna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×