Innlent

Sjónvarpsstöð fyrir fréttaþyrsta þjóð

Í nýja fréttasettinu. Róbert Marshall, Edda Andrésdóttir og Sigmundur Ernir Rúnarsson munu héðan í frá flytja fréttirnar frá þessari nýju fréttastofu í Skaftahlíð.
Í nýja fréttasettinu. Róbert Marshall, Edda Andrésdóttir og Sigmundur Ernir Rúnarsson munu héðan í frá flytja fréttirnar frá þessari nýju fréttastofu í Skaftahlíð.

Nýja fréttastöðin hefur útsendingar í dag. Það þýðir einnig að fréttatími Stöðvar 2 í gær var sá síðasti sem þar var gerður en hér eftir munu kvöldfréttir frá NFS vera á skjá stöðvarinnar á þessum tíma.

Forsvarsmenn NFS kynntu í gær hvers sjónvarpsáhorfendur mættu vænta frá stöðinni.

"NFS er fyrsta fréttastöðin á Íslandi sem er með fréttaútsendingar linnulaust frá morgni til kvölds," sagði Sigmundur Ernir Rúnarsson fréttastjóri. "Íslendingar eru fréttaþyrst þjóð og þrá það að fá fréttir beint í æð og við ætlum að svara því kalli," bætti hann við.

Fréttatímar verða sendir út frá klukkan sjö að morgni til ellefu að kvöldi á heila og hálfa tímanum. Á milli þeirra verða svo fréttatengdir þættir.

Jóhannes Kr. Kristjánsson mun svo hafa umsjón með þætti sem heitir Kompás en sá þáttur verður byggður upp á rannsóknarblaðamennsku. Sigurður Þ. Ragnarsson, betur þekktur sem Siggi stormur, sagði að á stöðinni yrði veðurvöktun og veðurspá auk þess sem höfð yrði samvinna við Vegagerðina um upplýsingar um færð á vegum. "Það verður því lítil veðurstofa hér á fréttastöðinni," sagði Siggi stormur svo það gustaði af honum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×