Innlent

Togurum skipt út fyrir línuveiðiskip

Guðmundur Kristjánsson forstjóri Brims segir ein bestu línumiðin nú um stundir út af Norður- og Norðausturlandi og því hagkvæmt að gera línuveiðiskip út frá Akureyri.
Guðmundur Kristjánsson forstjóri Brims segir ein bestu línumiðin nú um stundir út af Norður- og Norðausturlandi og því hagkvæmt að gera línuveiðiskip út frá Akureyri.

KG-fiskverkun á Rifi, Brim hf. og Útgerðarfélagið Tjaldur hafa ákveðið að láta smíða fjögur ný línuveiðiskip og er stefnt á að fyrstu skipin verði tekin í notkun á fyrri hluta ársins 2007.

Guðmundur Kristjánsson, forstjóri Brims, segir að á móti verði einhverjir togarar seldir en ekki hafi verið tekin ákvörðun um hvaða togarar það verði né hversu margir. Félögin gera nú út fimm togara og tvö línuveiðiskip en Guðmundur segir að með þessari ákvörðun séu félögin að taka þá stefnumarkandi ákvörðun að einbeita sér í auknum mæli að línuveiðum. Hann segir að breytt útgerðarform muni ekki kalla á fækkun sjómanna en þess í stað verði þeim jafnvel fjölgað.

"Útgerð línuveiðiskipa er hagkvæmt rekstrarform í dag og býður upp á aukin gæði hráefnis og ferskari vöru. Endanlegur kostnaður við smíði skipanna liggur ekki fyrir en við höfum unnið að þessu máli í nokkuð langan tíma og ljóst að þau verða smíðuð erlendis," segir Guðmundur.

Skipin verða mislöng en öll verða þau um 50 metrar að lengd eða nokkru stærri en Tjaldur SH 270, sem gerður er út af Brimi, en hann er rúmir 43 metrar að lengd og 688 brúttótonn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×