Innlent

Bjórinn vinsæll og hass algengt

Neysla vímuefna á sér að miklu leyti stað í jafningjahópum meðal ungmenna. Þar læra þau hvert af öðru og þar getur almenn neysla orðið hluti af lífsstíl þeirra. Löggæsla og refsingar leysa aðeins lítinn hluta vandans en eftirlit foreldra og gott samband þeirra við börnin sín minnka verulega líkur á að ungmenni leiðist út í fíkniefni.

Þetta er meðal þess sem fram kemur í nýrri skýrslu Lýðheilsustöðvar og Rannsókna & greiningar. Skýrslan var kynnt í gær en hún var gerð til að kortleggja neyslu áfengis og fíkniefna meðal ungmenna. Sérstaklega var litið til framhaldsskólanema við gerð skýrslunnar en þeir eru flestir á aldrinum sextán til tuttugu ára.

Í skýrslunni kemur meðal annars fram að allt að helmingur framhaldsskólanema sem orðnir eru tvítugir eða eldri hefur prófað að reykja hass. Um er að ræða nemendur sem hefur seinkað í námi og geta skýrsluhöfundar sér þess til að þar liggi hluti skýringarinnar. Hlutfall þeirra sem reykja tóbak er einnig mun hærra í hópi eldri nemenda.

Bjór er vinsælasta áfengið í þessum aldurshópi og kemur sterkt áfengi þar á eftir. Minna er drukkið af léttvíni.

Þá hafði yfir helmingur allra framhaldsskólanema orðið drukkinn árið 2004 síðustu þrjátíu dagana áður en rannsóknin var gerð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×