Innlent

Bjartsýni um samkomulag

Hittist eftir hádegi. Forsendunefndin er bjartsýn á að samkomulag náist áður en tíminn rennur út á miðnætti annað kvöld. Nefndin hittist aftur eftir hádegi í dag.
Hittist eftir hádegi. Forsendunefndin er bjartsýn á að samkomulag náist áður en tíminn rennur út á miðnætti annað kvöld. Nefndin hittist aftur eftir hádegi í dag.

Bjartsýni ríkir um að samkomulag náist í samningaviðræðum Samtaka atvinnulífsins og Alþýðusambands Íslands. Forsendunefndin hittist aftur eftir hádegi í dag en fyrir hádegi ræða fulltrúar nefndarinnar við sína heimamenn innan ASÍ og SA.

"Ég tel að það hafi þokast í viðræðunum en get samt ekki tíundað neitt öðru fremur. Það er bara verið að vinna í þessu og skoða alla þætti," sagði Ari Edwald, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, um niðurstöðu fundar forsendunefndarinnar í gær.

"Það er ekki komin niðurstaða en ég geri mér vonir um að hún náist samt sem áður. Það er margfalt meira hagsmunamál fyrir launþega og efnahagslífið í heild að ná saman. Mér finnst í raun fráleit niðurstaða fyrir okkur öll að missa málið út í það fen að ná ekki saman og segja upp samningum. Öll tíðindi úr umhverfinu finnst mér að styðji það frekar en ekki að niðurstaða eigi að geta náðst."

Gylfi Arnbjörnsson, framkvæmdastjóri ASÍ, vildi ekkert segja um viðræðurnar í gærkvöld. "Það eru engin tíðindi af fundinum og lítið frá að segja. Við erum bara að vinna að þessu með sama hætti og áður og erum að ræða allt málið, ekkert öðru fremur. Það eru alltaf að fæðast og deyja tillögur og lítið frá því að segja. Vð þessar aðstæður er rangt að fara að tíunda það."

Frestur til að segja upp kjarasamningum á almennum markaði rennur út á miðnætti annað kvöld og eru enn stór mál ófrágengin. Verkalýðshreyfingin hefur lagt áherslu á samkomulag um launahækkun, atvinnuleysistryggingar og myndarlegri aðkomu stjórnvalda að örorkubótum á almennum markaði en örorkubyrðin á markaðnum í heild sinni nemur um 3,5 milljörðum króna. Þá er stefnt að löggjöf um starfsmannaleigur og myndarlegan kraft í aukna möguleika á endurmenntun. Samkvæmt heimildum blaðsins er verkalýðshreyfingin bjartsýn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×