Innlent

Fjárhagsvandinn verður leystur

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra segist vilja efla Háskólann á Akureyri og þá ekki síst hvað varðar laga- og meistaranám.
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra segist vilja efla Háskólann á Akureyri og þá ekki síst hvað varðar laga- og meistaranám.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra segir að enginn þurfi að óttast að fjárhagsvandi Háskólans á Akureyri verði ekki leystur. Eftir boðaðar aðhaldsaðgerðir háskólaráðs er fjárþörf skólans, vegna komandi árs, 130 milljónir króna og segir Þorgerður að nú þegar hafi verið tryggðar 40 milljónir króna til að mæta þeim halla.

"Fjárhagsvandi háskólans verður leystur á hægan og eins sársaukalítinn hátt og unnt er en aðhaldsaðgerðirnar tryggja að reksturinn mun ná jafnvægi árið 2008," segir Þorgerður. Menntamálaráðherra telur ekki að rekja megi fjárskort háskólans til stjórnunarvanda innan skólans heldur til þess hve vöxtur skólans hafi verið hraður. Segir hún háskólaráð og Þorstein Gunnarsson rektor hafa tekið á vandanum af miklum metnaði með ákvörðun sinni um hagræðingu.

"Það er verið að fara með Háskólann á Akureyri inn í framtíðina og byggja undirstöðurnar þannig að skólinn geti tekist á við vaxandi samkeppni á háskólasviðinu og stjórnvöld munu ekki láta sitt eftir liggja í þeim efnum," segir Þorgerður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×