Innlent

Háskólakennurum verður ekki sagt upp

Ingi Rúnar Eðvarðsson prófessor segir viðbúið að einhverjir kennaranna muni kjósa að hætta.
Ingi Rúnar Eðvarðsson prófessor segir viðbúið að einhverjir kennaranna muni kjósa að hætta.

Ingi Rúnar Eðvarðsson, prófessor við Háskólann á Akureyri, segir kennara og annað starfsfólk Háskólans á Akureyri í óvissu með störf sín eftir að háskólaráð ákvað í vikunni að grípa til aðhaldsaðgerða sem spara eiga liðlega 50 milljónir króna í rekstri skólans. Jafnframt segir hann starfsfólk undrast að þingmenn stjórnarflokkanna í Norðausturkjördæmi skuli ekki hafa beitt sér af hörku til lausnar fjárhagsvanda skólans.

"Þingmenn kjördæmisins úr röðum stjórnarandstöðunnar hafa nokkuð tjáð sig um fjárhagsvandann en lítið sem ekkert hefur heyrst frá ráðherrum kjördæmisins og öðrum þingmönnum stjórnarflokkanna. Það sama á við um bæjaryfirvöld á Akureyri og svo virðist sem bakland skólans sé veikt," segir Ingi Rúnar.

Þorsteinn Gunnarsson, rektor háskólans, átti fund með kennurum og nemendum skólans síðastliðinn föstudag þar sem aðhaldsaðgerðirnar voru kynntar, en Ingi Rúnar segir að ekki séu allir starfsmenn skólans sáttir við niðurskurðinn og þær lausnir sem boðaðar hafi verið.

"Ég hef ekki heyrt af því að kennarar séu nú þegar farnir að hugsa sér til hreyfings en það er viðbúið að einhverjir taki poka sína. Starfsfólk skólans finnur fyrir óvissu og menn vita ekki hvað framtíðin ber í skauti sér en þó hygg ég að flestir ætli að bíða átekta og sjá hver framvindan verður," segir Ingi Rúnar.

Þorsteinn segir kennara ekki þurfa að óttast um störf sín því ekki verði fækkað í kennaraliði skólans, utan tveggja deildar­forseta. "Einu kennararnir sem hætta eru Mark O" Brien, deildarforseti upplýsingatæknideildar, og Björn Gunnarsson, deildarforseti auðlindadeildar, en þessar tvær deildir verða sameinaðar viðskiptadeild," segir Þorsteinn.

Rektor segir engar ákvarðanir hafa verið teknar um uppsagnir annarra starfsmanna skólans en segir að hugsanlega verði ekki ráðið í störf þeirra sem kjósa að hætta.

"Tíminn mun leiða í ljós hvort nauðsynlegt reynist að segja einhverjum upp störfum en ljóst er að það verða engar hópuppsagnir," segir Þorsteinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×