Innlent

Mannréttindadómstóllinn lokar á fólk

Davíð Þór Björgvinsson hefur starfað sem dómari við Mannréttindadómstólinn í rúmt ár og segir það mest hafa komið á óvart hversu gríðarleg vinnuálag sé á dómurum og öðrum starfsmönnum stofnunarinnar.
Davíð Þór Björgvinsson hefur starfað sem dómari við Mannréttindadómstólinn í rúmt ár og segir það mest hafa komið á óvart hversu gríðarleg vinnuálag sé á dómurum og öðrum starfsmönnum stofnunarinnar.

Davíð Þór Björgvinsson, dómari við Mannréttindadómstól Evrópu, segir alvarlega íhugað að hætta að taka við málum sem berist dómstólnum beint frá einstaklingum.

Davíð Þór segir rætt um hvað beri að gera vegna vinnuálags á dómara og aðra starfsmenn. Hver sem vill og telur sig hafa ástæðu getur kvartað beint til dómstólsins án milligöngu lögmanna eins og venja er fyrir öðrum reglubundnum dómstólum. Þrátt fyrir að stórum hluta málanna sé vísað frá vegna margvíslegra formgalla verða dómarar engu að síður að yfirfara hvert og eitt mál og það er tímafrekt. Meðalbiðtími eftir úrskurði mála er tvö til þrjú ár. Sé um virkileg prófmál að ræða geta þau í verstu tilvikum tekið allt að tíu árum.

Hætti dómstóllinn að taka við málum frá almenningi verður það grundvallarbreyting.

"Ef svo verður er um hneyksli að ræða og mörg skref afturábak frá því sem nú er. Það er lágmarkskrafa að þær þjóðir sem að dómstólnum standa veiti honum það fé sem nauðsynlegt er til að halda starfi sínu áfram með óbreyttu sniði," segir Ragnar Aðalsteinsson hæstaréttarlögamður og segist ekki hafa mikla trú að til svo róttækra aðgerða verði gripið.

Vandi Mannrétttindadómstólsins getur verið mikill. Davíð nefnir sem dæmi mál þar sem lögð var fram kæra vegna seinagangs í tyrkneska dómkerfinu. Seinagangur Mannréttindadómstólsins var engu minni enda tók tæp tíu ár að ljúka málinu. Verði ekkert gert verði það venja fremur en undantekning að hvert og eitt mál taki fleiri ár í meðferð og miðað við þann fjölda sem daglega berist til dómstólsins sé nauðsynlegt að gripið verði til aðgerða fyrr en síðar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×