Lífið

Rifjar upp gamlar minningar

Sellólaust tríó með horni. Þau Guðný Guðmundsdóttir fiðluleikari, Joseph Ognibene hornleikari og Peter Maté píanóleikari skipa Tríó Reykjavíkur á tónleikum í Hafnarborg annað kvöld.
Sellólaust tríó með horni. Þau Guðný Guðmundsdóttir fiðluleikari, Joseph Ognibene hornleikari og Peter Maté píanóleikari skipa Tríó Reykjavíkur á tónleikum í Hafnarborg annað kvöld.

Tríó Reykjavíkur hefur fengið Joseph Ognibene hornleikara til liðs við sig á tónleikum sínum í Hafnarborg á morgun. Hann tekur sæti Gunnars Kvarans sellóleikara og spilar sem gestur tríósins með þeim Guðnýju Guðmundsdóttur fiðluleikara og Peter Maté píanóleikara. "Ég er að spila Beethoven-sónötu sem ég hef ekki leikið síðan ég var sextán ára," segir Joseph, sem hlakkar til að rifja upp gömul kynni af þessari þekktu horn­sónötu Beethovens.

"Beethoven spilaði þetta verk sjálfur á sínum tíma með manni sem hét Giovanni Punto. Hann var hornvirtúós á sínum tíma, líklega fyrsti hornvirtúós sögunnar. Þetta var mjög merkilegur maður. Það þekktu hann allir í Vínarborg og allir vildu spila með honum, en hann hét í raun og veru allt annað á tékknesku. Hann var flóttamaður frá Bæheimi og mjög umdeildur.

Í heimalandinu voru þeir svo reiðir út í hann að það var send skipun um að handtaka hann, eða í það minnsta að slá úr honum tennurnar." Þessa sónötu leikur Joseph með Peter Maté píanóleikara, en hann leikur einnig tríó eftir Brahms með þeim Guðnýju og Peter.

"Ég hef spilað Brahms-tríóið áður með Guðnýju og svo hef ég líka spilað það með Peter, en við þrjú höfum aldrei leikið það saman fyrr en núna." Joseph Ognibene er frá Bandaríkjunum en hefur búið hér á landi í nærri aldarfjórðung. "Ég kom hingað 23 ára gamall til að spila með Sinfóníunni.

Núna er ég 48 ára gamall svo ég hef verið hér meira en fimmtíu prósent ævinnar." Hann segist engan veginn sjá eftir því að hafa flutt hingað á sínum tíma, enda hafi hann haft nóg að gera í tónlistinni, leikið með Sinfóníuhljómsveitinni, starfað sem kennari og komið fram sem einleikari við ýmis tækifæri. "Ég hef komið fram sem einleikari með Sinfóníunni, en ekki gert svo mikið af því að leika einleik með píanóleikara. Þess vegna líka hefur þetta Beethoven-tríó orðið útundan. En þetta er mjög skemmtilegt tríó og reynir á öll tónsvið hljóðfærisins."

Á tónleikunum flytja þau Guðný og Peter einnig Vorsónötu Beethovens fyrir fiðlu og píanó. Tónleikarnir hefjast klukkan 20 annað kvöld.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.