Lífið

Glímt við sali Listasafns

Darri Lorenzen og Elín Hansdóttir. Þau þurftu að notast við kranabíl með körfu til þess að koma fyrir lýsingu fyrir utan safnið.
Darri Lorenzen og Elín Hansdóttir. Þau þurftu að notast við kranabíl með körfu til þess að koma fyrir lýsingu fyrir utan safnið.

Þrettán ungir listamenn eiga verk á sýningunni Ný íslensk myndlist II, sem opnuð verður í Listasafni Íslands í dag. "Við tókum fljótlega þann pól í hæðina að fá listamennina til þess að fjalla um rýmið hérna inni í Listasafninu," segir Harpa Þórsdóttir listfræðingur, einn þriggja sýningarstjóra sýningarinnar Ný íslensk myndlist II sem opnuð verður í Listasafni Íslands í dag.

Sýningarstjórar með Hörpu eru þær Eva Heisler, amerískur listfræðingur sem hefur búið hér á landi í nokkur ár, og Kristín G. Guðnadóttir listfræðingur, sem er forstöðumaður Listasafns ASÍ.

"Sum verkin eru búin til inn í safnið, beinlínis hönnuð hér inni, en hin verkin hafa flest lítið sést áður en okkur fannst þau falla vel að sýningunni og hugmyndinni að baki henni." Listasafnið vill með þessari sýningu, alveg eins og með fyrri sýningunni Íslensk myndlist I, beina sjónum manna að þeirri nýsköpun sem átt hefur sér stað í íslenskri myndlist undanfarið.

Öll verkin á sýningunni eiga það sameiginlegt að fást við rýmið á einn eða annan hátt. "Pælingar um rými og rýmistengd listaverk eru mjög stór þáttur í myndlistinni í dag," segir Harpa. "Þessi verk fjalla líka um áhorfendurna og tengsl listaverks og áhorfandans, hvernig hann getur verið virkur aðili í listsköpuninni."

Afar misjafnt er hvernig listamennirnir tóku áskorun sýningarstjóranna. Hulda Stefánsdóttir fór til dæmis þá leið að gera innsetningu með málverkum og ljósmyndum í anddyri Listasafnsins. "Það var heilmikil áskorun að takast á við þetta rými sem er arkitektúr stáls og glers, dálítið kalt allt saman, svo ég ákvað að hafa þetta milt og rómantískt."

Í sumar var Hulda með sýningu í Ásmundarsal þar sem hún var að skoða hvíta litinn, sem er ákveðið litleysi. "Ég held áfram þessum litapælingum, en nú fer ég yfir í roðann. Mér fannst það passa vel inn í þetta rými. Þetta eru allt saman rauðar myndir, húð og skuggar, bæði listsögulegar skírskotanir og persónulegar."

Þau Elín Hansdóttir og Darri Lorenzen fengu sal 4 að stórum hluta til umráða, en sá salur er á efri hæð hússins og snýr út að Tjörninni. "Þessi salur er allur bogadreginn og mjög snúinn, þannig að það komu ákveðin vandræði upp í hvert skipti sem við vorum að hugsa hvernig við ættum að gera þetta," segir Elín. "Á endanum ákváðum við að gera salinn sjálfan að verkinu sem við sýnum. Við bætum í sjálfu sér engu við hann, en teygjum hann og togum. Í raun og veru endurbyggjum við hluta salarins og sköpum þannig nýtt rými þarna inni, og um leið erum við að spila svolítið með þær minningar sem fólk hefur úr þessu húsi, og líka umhverfið fyrir utan, Tjörnina og allt það," segir Elín og minnir á að í eina tíð var þetta musteri listarinnar íshús og síðar var þarna skemmtistaðurinn Glaumbar til húsa.

Aðrir listamenn sem eiga verk á sýningunni eru Hafdís Helgadóttir, Hekla Dögg Jónsdóttir, Hlynur Helgason, Inga Þórey Jóhannsdóttir, Katrín Sigurðardóttir, Kristinn Hrafnsson, Ragnar Helgi Ólafsson, Sara Björnsdóttir, Unnar Örn Jónasson Auðarson og Þóra Sigurðardóttir.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.