Innlent

Hætta á Fagradalsvegi

Hættulegur vegur. Séð úr fjarlægð virðist vegurinn auður en þegar nær er komið sést ísingin. Ökumaður steypubílsins áttaði sig ekki á lúmskri hálkunni.
Hættulegur vegur. Séð úr fjarlægð virðist vegurinn auður en þegar nær er komið sést ísingin. Ökumaður steypubílsins áttaði sig ekki á lúmskri hálkunni.

"Bílstjórar eru að leggja sig í stórhættu með því að fara þennan fjölfarna veg um Fagradal og það segir meira um hæfni bílstjóranna en ástand veganna að ekki hafi orðið fleiri slys líkt þessu á miðvikudag," segir Ásgrímur Ásgrímsson, bílstjóri hjá Landflutningum á Egilsstöðum.

Hann vitnar þar til slyssins sem varð þegar sementsflutningabíll snerist á veginum áður en hann fór út af og má mildi heita að enginn hafi mætt bílnum á því augnabliki.

"Á að giska fara um 200 bílar á dag um þennan veg, sem er á sama þjónustustigi og vegurinn um Hellisheiði og því ætti hann að vera hálkufrír. Vegagerðin virðist hins vegar ekki hafa nokk­urn skilning á því og vegurinn er ísilagður dag eftir dag," bætir Ásgrímur við.

Hann segir að margir bílar fari út af veginum daglega og saltdreifing Vegagerðarinnar geri lítið sem ekkert gagn.

Einn vegfarandi sem vinnur á Kárahnjúkum og þarf oft að fara veginn á leið sinni til Reyðar­fjarðar segist þurfa að setja keðjur undir bíl sinn á jafnsléttum veginum þó hann sé á vetrar­dekkjum og á háannatímum lulli bíll við bíl á ísilögðum vegi. Hann telur þetta óskiljanlega vanrækslu af hálfu Vegagerðarinnar, sérstaklega í ljósi þess að fjöldi fólks sem búi á Héraði sæki vinnu til Reyðarfjarðar.

"Við treystum okkur ekki til þess að halda vegunum alltaf auðum," segir Páll Þ. Elísson, yfirverkstjóri Vegagerðarinnar á Reyðarfirði. "Hins vegar hefur bara verið nokkuð góð vetrarfærð að undanförnu þó einstaka hálkublettir séu kannski hér og þar. Ef einhver vill sannreyna það má alltaf sjá það á vef Vegagerðarinnar en þar er hægt að sjá vegina úr myndavélum sem við erum með víða við vegi."

Hann viðurkennir að ekki sé þó ástandið alltaf gott. "Þetta er íslenskur vetur og við gerum okkar besta til að halda þessu í góðu horfi, förum yfir þetta jafnvel sex til sjö sinnum á dag en meira að segja göturnar í Reykjavík eru ekki hálkufríar ef út í það er farið," segir hann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×