Innlent

Hugmynd um óperu vel tekið

Óperuhúsið. Svona myndi óperuhúsið líta út miðað við fyrstu hugmyndir.
Óperuhúsið. Svona myndi óperuhúsið líta út miðað við fyrstu hugmyndir.

"Okkur í Óperunni líst vel á þessar hugmyndir Gunnars; við lítum á þetta sem ákjósanlegan kost í okkar húsnæðismálum og bíðum spennt eftir að heyra meira af framvindu þessa máls," segir Bjarni Daníelsson óperustjóri um fyrirhugað Óperuhús við Borgarholt í Kópavogi.

"Kjarninn í minni hugmynd var að það kæmu aðilar úr einkageiranum að fjármögnun hússins ásamt Kópavogsbæ og sú vinna stendur yfir núna og lýkur vonandi fyrir jól," segir Gunnar I. Birgisson, bæjarstjóri í Kópavogi og höfundur hugmyndarinnar. Hann vill ekki geta sér til um það hvenær framkvæmdir gætu hafist en fyrirhugað er að þær taki tvö til tvö og hálft ár.

"Þetta er ennþá bara hugmynd og skýr hönnun liggur ekki enn fyrir en gert er ráð fyrir að húsið muni taka á bilinu 600 til 700 manns og kostnaður yrði á bilinu einn og hálfur til tveir milljarðar," útskýrir hann.

@Mynd -FoMed 6,5p CP:Gunnar I. Birgisson Bæjarstjórinn tekur forskot á sæluna og syngur Kópavogsaríu þó enn sé óperuhúsið ekki orðið að veruleika.

Óperuhúsið yrði byggt við jaðar Borgarholts í Kópavogi en þar eru fyrir tónleikahúsið Salurinn, Gerðarsafn, Náttúrugripasafnið og Bókasafn Kópavogs. "Meiningin er svo að tengja menningarstarfsemina alla saman þannig að ein vinni með annarri og þetta verði svona menningartorfa, þarna mætti einnig halda málþing og ráðstefnur svo þetta nýtist ekki aðeins menningunni," segir Gunnar. Hann bætir við að hugmyndir séu uppi um að byggja yfirbyggingu sem myndi tengja óperuhúsið og Gerðarsafn.

@Mynd -FoMed 6,5p CP:Menningartorfa við Borgarholt Óperuhúsið er hér sett inn með tölvumynd svo hægt sé að sjá hvernig menningartorfan við Borgarholt muni líta út.

Bjarni segir að markaðurinn fyrir óperu sé ekki stór á Íslandi en telur þó að óperuhús sem rúmi fleiri en sjöhundruð manns geti vel borgað sig. "Óperuhús sem er sérhannað fyrir óperuflutning en einnig nýtanlegt til ýmissa annarra listviðburða og gæti vel verið í daglegri notkun og því vel hægt að reka það svo vel sé," segir hann. Hann er sáttur við staðsetninguna. "Fyrst því var ekki komið fyrir við höfnina í Reykjavík líst mér vel á það í Kópavoginum," bætir hann við.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×