Innlent

Strætó 115 milljónir fram úr áætlunum

Ármann Kr. Ólafsson
Ármann Kr. Ólafsson

Rekstur Strætó bs. fer 115 milljónir króna fram úr áætlun á þessu ári samkvæmt afkomuspá, að sögn Ásgeirs Eiríkssonar framkvæmdastjóra Strætó.

"Ástæðurnar fyrir þessu eru aðallega tvær," útskýrir hann: "Annars vegar eru tekjurnar mun minni en áætlað hafði verið og svo eru útgjöld mun hærri vegna þess að aksturinn er mun meiri en áætlað hafði verið." Ásgeir segir að tekjurnar séu um 40 milljónum undir því sem áætlað var og aukinn kostnaður sé um 75 milljónum meiri vegna meiri aksturs sem fylgi nýja strætisvagnakerfinu sem komið var á í sumar.

Sveitarfélögin sjö á höfuðborgar­svæðinu sem standa að rekstrinum greiða 1,4 milljarða króna með rekstri Strætó. "Okkur hefur ekki tekist að fjölga farþegum eins og við gerðum okkur vonir um en nú er stjórnin að ræða það hvernig bregðast megi við þessu," segir Björk Vilhelmsdóttir, formaður stjórnar Strætó. Spurð hvernig standi á því að útgjöld vegna aukins aksturs hafi verið svo stórlega vanáætluð segir Björk: "Það mætti frekar segja að krafa sveitarfélaganna um meiri þjónustu kosti mun meira en þau séu tilbúin að borga." Hún segir að þessi akstursaukning geti ekki öll skrifast á nýja leiðakerfið heldur hafi Strætó þurft að sinna fjölda nýrra hverfa á höfuðborgar­­svæðinu.

Ármann Kr. Ólafsson, sem einnig á sæti í stjórninni, telur að hagræða megi stórlega í rekstrinum með því að bjóða út fleiri leiðir. "Menn hafa verið aðeins of fastheldnir á rekstrarformið, það mætti alveg bjóða fleiri leiðir út og láta einkaaðila um það hvaða bíla þeir nota á þeim leiðum. Þeir gætu þá notað minni bíla þegar rólegt er og stærri bíla á háannatímum. Þetta hefur verið gert í Kópavogi með góðum árangri," segir Ármann.

Þessu er Björk ekki sammála. "Það hefur ekkert verið sýnt fram á það að reksturinn verði neitt ódýrari þó að akstursleiðirnar séu boðnar út," svarar hún. Ásgeir segir að aðrar leiðir, sem ræddar hafa verið í stjórninni, séu að draga úr þjónustunni eða hækka tekjur eða sambland af hvoru tveggja.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×