Lífið

Kærleikur og gleði

Orri Harðarson hefur gefið út sína fjórðu sólóplötu.
Orri Harðarson hefur gefið út sína fjórðu sólóplötu.

Skagamaðurinn Orri Harðarson hefur gefið út plötuna Trú. Þetta er fjórða plata Orra en fyrsta plata hans, Drög að heimkomu, kom út árið 1993. Orri, sem hefur verið búsettur á Akureyri undanfarin ár, segist hafa byrjað að vinna að plötu í apríl á þessu ári.

"Ég var búinn að klára sjö lög en var ekkert ánægður með það efni þannig að ég kastaði því. Svo í sumar samdi ég fjórtán laga bunka á tveimur dögum í einhverri manískri gleði. Helmingurinn af því fór á þessa nýju plötu," segir Orri.

Að sögn Orra er megin­umfjöllunarefni plötunnar kærleikur og gleði. "Ég var orðinn svolítið leiður á þessari bölsýni í mér. Ég held að það sé jafnvel erfiðarara fyrir menn eins og mig að skila frá sér svona plötu. Það er miklu auðveldara að vera í einhverjum heimsósóma."

Orri fékk þekkta hljóðfæraleikara til liðs við sig fyrir upptökurnar, þar á meðal Pálma Gunnarsson, sem spilar á bassa, KK og Marc Breitfelder, sem spilar á munnhörpu með hljómsveit KK, The Grinders. Ber hann þeim öllum vel söguna, rétt eins og söng- og leikkonunni Arnbjörgu Hlíf Valsdóttur sem kemur víða við sögu á plötunni. Hvað varðar titil plötunnar, Trú, segist Orri hafa litið yfir textana og séð að þeir fjölluðu flestir um trú á lífið og allt það jákvæða. "Trú er hugtak sem fólk er voðalega upptekið af í dag. Mér hefur hún ekki fundist hún leiða fólk í sérstaklega góð mál. Það er miklu betra að trúa bara á kærleikann enda fara menn ekki með ófriði í nafni kærleikans," segir Orri.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.