Innlent

Funda aftur um Pólverja í dag

Þorbjörn Guðmundsson framkvæmdastjóri Samiðnar segir að í dag verði áfram fundað með lögmanni starfsmannaleigunnar 2B ehf. um mál pólskra verkamanna sem vilja fá afhenta launaseðla með uppgjöri.
Þorbjörn Guðmundsson framkvæmdastjóri Samiðnar segir að í dag verði áfram fundað með lögmanni starfsmannaleigunnar 2B ehf. um mál pólskra verkamanna sem vilja fá afhenta launaseðla með uppgjöri.

Forsvarsmenn Samiðnar funduðu með Sveini Andra Sveinssyni, lögmanni starfsmannaleigunnar 2B seinni partinn í gær. Engin niðurstaða var af fundinum, en til stendur að funda aftur í dag. Fimmtán af átján Pólverjum frá starfsmannaleigunni 2B sem áttu að fara heim á mánudag dvelja enn á Kárahnjúkum.

Pólverjarnir neituðu að yfirgefa svæðið fyrr en þeir hefðu fengið í hendur launaseðla sína, með uppgjöri við starfsmannaleiguna. Að sögn Odds Friðrikssonar ákváðu hins vegar þrír að halda til Reykjavíkur í gær og eru á heimleið. Mennirnir hafa dvalið hér á landi í þrjá mánuði og unnið fyrir Suðurverk við Kárahnjúka.

"Annars er mál Pólverjanna nú í höndum verkalýðsfélagsins," segir hann og vísaði til fundahaldanna með lögmanni 2B.

Þorbjörn Guðmundsson, framkvæmdastjóri Samiðnar, sagðist ekki treysta sér til að spá fyrir um endalok viðræðnanna við 2B, en kvaðst vonast til að pólsku verkamennirnir yrðu ekki fyrir fjárhagstjóni og að í lausn málsins myndi líka semjast um heimferð þeirra.

"Fundurinn var gagnlegur og menn ræddu málið af skynsemi og yfirvegun. Við einsettum okkur að finna skynsamlega lausn," segir Sveinn Andri, en treystir sér ekki fremur en Þorbjörn að spá fyrir um hvort samkomulag myndi nást.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×