Innlent

Formaður VG vill skýr svör stjórnvalda um fangaflug

Steingrímur J. Sigfússon alþingismaður
Steingrímur J. Sigfússon alþingismaður

Formaður Vinstri grænna spyr stjórnvöld hvort þeim sé kunnugt um að bandaríska leyniþjónustan hafi haft viðdvöl hér á landi með fanga sem hugsanlega sæti pyndingum. Stjórnvöld telja slíkt ósannað en bíða upplýsinga um málið.

"Ég rökstyð fyrirspurn mína á Alþingi með þeim gögnum sem ég hef," segir Steingrímur J. Sigfússon formaður Vinstri grænna. Hann hefur óskað svara frá Geir H. Haarde utanríkisráðherra við spurningum um hugsanlegar ferðir bandarísku leyniþjónustunnar með fanga um íslenska lofthelgi og um viðkomu slíkra véla á Keflavíkurflugvelli. Þingfundir verða aftur í næstu viku að lokinni kjördæmaviku þingmanna og má búast við svörum utanríkisráðherra um miðja vikuna.

Steingrímur spyr hvort ráðuneytinu sé kunnugt um að flugvélar á vegum bandarísku leyniþjónustunnar með fanga eða meinta hryðjuverkamenn, hafi farið um íslenska lofthelgi. Hann spyr jafnframt hvort utanríkisráðherra telji meðferð fanga, sem ekki njóti verndar og réttinda sem venjulegir borgarar, brot á alþjóðalögum og hvort íslensk stjórnvöld ætli að meina flugvélum með fanga eða meinta hryðjuverkamenn aðgang að íslenskri lofthelgi og afnot af íslenskum flugvöllum.

Íslandsdeild mannréttindasamtakanna Amnesty International vekur athygli á að algert bann við pyndingum og illri meðferð feli einnig í sér algert bann við að flytja fanga til ríkis þar sem hætta sé á að hann verði pyntaður eða látinn sæta grimmilegri meðferð. "Erlendum stjórnvöldum ber að sækja um yfirflugs- og lendingarleyfi vegna flugvéla sem fara inn í lofthelgina eða lenda," segir Ragnheiður Elín Árnadóttir, aðstoðarmaður utanríkisráðherra. Hún segir að borgaralegt flug sé ekki háð slíkum kvöðum og þurfi aðeins að tilkynna um áætlun sína. "Við höfum ekki fengið umsóknir vegna annars flugs og getum ekki staðfest að í flugvélunum hafi verið fangar."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×