Innlent

Meirihluti vill reykingabann

Meirihluti þjóðarinnar er hlynntur því að allir veitinga- og skemmtistaðir á Íslandi verði reyklausir, samkvæmt skoðanakönnun sem Gallup gerði fyrir Lýðheilsustöð. Könnunin var gerð 16. febrúar til 1. mars. Endanlegt úrtak var 1.365 manns á aldrinum 15-89 ára alls staðar af landinu og var svarhlutfall 61,9 prósent. 61,3 prósent svarenda sögðust mjög eða frekar hlynnt reykingabanni á veitinga- og skemmtistöðum og er eldra fólk heldur hlynntara slíkum ráðstöfunum. 30 prósent segjast á hinn bóginn vera frekar eða mjög andvíg banni. Eins og búast má við er andstaðan við bann mest hjá reykingafólki. 85,5 prósent fólks sögðust mundu fara jafnoft eða oftar á slíka staði ef þeir væru reyklausir. Einnig töldu 93,8 prósent svarenda það vera skaðlegt fyrir heilsu fólks að vinna í umhverfi þar sem reykt er. "Ég er mjög ánægð að sjá hversu margir eru hlynntir slíku banni, sérstaklega þar sem spurt er um fortakslaust bann á öllum veitinga- og skemmtistöðum," segir Jakobína H. Árnadóttir, verkefnisstjóri tóbaksvarna hjá Lýðheilsustöð.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×