Erlent

Prinsinn á von á barni í lausaleik

Louis prins í Lúxemborg og kærastan hans eiga von á barni. Prinsinn, sem er aðeins nítján ára gamall, kynntist kærustunni í herþjónustu í Kosovo á síðasta ári. Kærastan er almúgastúlka og heitir Tessy Anthony Hansen. Aldur hennar hefur ekki verið gefinn upp. Í tilkynningu frá konungshöllinni segir að þau hafi verið elskendur í eitt ár, en ætli sér ekki að giftast að sinni. Barnið verður fyrsta barnabarn Henri hertoga og Maríu Teresu konu hans. Dagblaðið Luxembourg Daily segir að konungsfjölskyldan muni sjá fyrir þörfum og velfarnaði fjölskyldunnar ungu, á meðan fjölmiðlar í nágrannaríkinu Belgíu hafa lýst þunguninni sem hneyksli, sér í lagi fyrir íhaldssamt fólk sem er hlynnt konungsfjölskyldunni. Það eitt að þau ætli ekki að giftast hefur vakið mikla athygli. Prinsinn ungi er þriðji erfingi hertogahjónanna í fimm systkina hópi. Hann hefur nýlokið árs námi við herskóla í Sviss.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×