Lífið

Íslenska sveitin

Friðrik Guðmundsson, kvikmyndagerðarmaður er nýkominn heim frá Kabúl í Afghanistan þar sem hann var að vinna að heimildarmynd um íslensku friðargæsluna sem nú hefur umsjón yfir stjórn flugvallarins í Kabúl, undir stjórn Haraldar Sigurðssonar, aðstoðarframkvæmdastjóra hjá Flugmálastjórn. Myndin, sem framleidd er af Tindru, hefur hann nefnt Íslenska sveitin. Þegar hann var úti fékk hann að fylgja sautján íslenskum friðargæsluliðum eftir í sextán tíma á dag í þrjár vikur, auk þess sem hann bjó með þeim í eina viku. "Ég fór með þeim á skotæfingu og það fannst þeim rosalega gaman, var með þeim í eftirliti og fékk bara að fylgjast með því hvað þeir eru að gera þarna, hvað þeir eru að hugsa svona langt í burtu. Stákarnir hleyptu mér í dagbækur sínar og skrifuðu niður hugleiðingar sínar fyrir mig og því er kjarninn í myndinni um strákana." Eitt atriði myndarinnar sýnir fyrsta skiptið sem hópurinn fór út fyrir flugvallarsvæðið og inn í borg, þar sem þeim hafði verið boðið í súpu hjá Norðmönnum, hinum megin í borginni. "Þeir þurftu náttúrlega að vera gráir fyrir járnum því enginn fer útaf kampi nema með almennileg vopn, hjálma og skotheld vesti. Þegar komið var inn í borgina blasti mannlífið við, niðurnídd húsin og eymd hvert sem litið var. Allt í einu var stór trukkur stopp fyrir framan bílinn. Það þyngdist enn andrúmsloftið þegar annar trukkur, risastór var kominn fyrir aftan okkur og við vorum innikróaðir. Það sagði enginn neitt en þögnin sagði allt því að yfirleitt var létt yfir strákunum og margt masað. Allt í einu dró um átta ára strákur sig út úr hópnum og steig í fæturna til hliðar við bílinn. Hann lyfti hendinni og bjó til byssu úr henni og beindi "hlaupinu", vísifingrinum að Guðjóni og hleypti af. Þessi mynd festist í hugum manna og þó að við kæmumst heilu og höldnu í norska kampinn hafði töluvert saxast á góða skapið. Þessi strákur hafði einhvernveginn sýnt hvaða hug margir hafa til friðargæsluliðanna og þeirrar hættu sem getur beðið þeirra." Þrátt fyrir að Friðrik sé kominn heim aftur er tökum ekki lokið, því hann skildi tökuvél eftir við hátíðleg loforð íslensku friðargæsluliðanna um að þeir myndu halda tökum áfram. "Ég stefni svo að því að hafa hana tilbúna í október og frumsýna hana þegar kosningarnar verða í Afghanistan, það er að segja ef það verður nægjanlega mikill friður til að halda þær." svanborg@frettabladid.is





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.