Innlent

Vilja aðstoð við rækjuvinnslu

Forsvarsmenn Blönduóssbæjar eiga í viðræðum við þingmenn, ráðherra og fulltrúa Byggðastofnunar vegna atvinnuástands í bænum eftir að rækjuvinnslan Særún hætti störfum. Valgarður Hilmarsson, forseti bæjarstjórnar Blönduóss, segir að forsvarsmenn Særúnar hafi reynt að bjarga rekstrinum en það hafi reynst árangurslaust. Hins vegar sé enn reynt og bæjaryfirvöld hafi veitt þeim aðstoð. Um fimmtán starfsmenn fyrirtækisins hættu störfum um síðustu mánaðamót þegar rekstrinum var hætt. Valgarður segir þetta mikla blóðtöku fyrir svo lítið sveitarfélag þar sem munar um hvert starf. Um 920 manns búa á Blönduósi. Það kemur í ljós á næstu dögum hvort fyrirtækið geti hafið rekstur að nýju. Rækjuvinnsla á landinu hefur átt erfitt uppdráttar að undanförnu vegna hás olíuverðs, lágs afurðaverðs, óhagstæðrar gengisþróunar og lítillar veiði. Blönduós fékk 69 tonna byggðakvóta fyrir skömmu og Valgarður segir að hann dugi skammt þrátt fyrir að það muni um allt, hversu smátt sem það sé.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×