Innlent

Ill lykt af málinu

Forsvarsmaður Þjóðarhreyfingarinnar segir illa lykt af meðhöndlun dómsmálaráðuneytisins á umsókn hreyfingarinnar fyrir söfnun. Dómsmálaráðherra vísar því á bug. Þjóðarhreyfingin sendi þann 10. þessa mánaðar inn umsókn til dómsmálaráðuneytisins um leyfi til að safna fé á götum úti og ganga í hús vegna auglýsingar gegn Íraksstríðinu sem birtast á í New York Times. Engin svör hafi fengist við beiðninni fyrr en í gær að Þorsteinn Davíðsson aðstoðarmaður dómsmálaráðherra og sonur utanríkisráðherra hafi hringt í Hans Kristján Árnason og tilkynnt honum að ráðherra teldi sig vanhæfan í málinu þar sem Valgerður Bjarnadóttir, einn forvígismanna Þjóðarhreyfingarinnar væri systir ráðherra og að nokkurn tíma tæki að setja nýjan ráðherra í staðinn. Hans segist strax hafa boðist til þess að senda nýtt erindi án þess að nafn Valgerðar kæmi fram. Björn hafi hafnað því, þar sem það væri þegar opinbert að Valgerður væri viðriðin Þjóðarhreyfinguna. Þá segist Hans hafa boðist til þess að taka hana út úr nefndinni og setja þar inn nýjan aðila, en því væri ekki hægt að svara, því það hafi ekki verið kannað. Hans Kristján undrast þessa afgreiðslu, þetta sé smámál, en bendir á að dómsmálaráðherra hafi opinberlega lýst yfir andstöðu við þessa baráttu Þjóðarhreyfingarinnar. Hans spyr hvort Valgerður myndi lenda í vandræðum með að sækja um vegabréf eða ökuskírteini. Hann segir þetta svo mikið smámál að það sé ótrúlegt að beðið sé um nýjan ráðherra til þess að afgreiða beiðni um að fá að safna í baunadósir á torgi, þar sem einn ábyrgðarmanna sé systir ráðherra. Hans Kristján segir þetta ekki koma í veg fyrir að auglýsingin verði birt, það sé alveg öruggt. Þá segir hann að allt fé sem gangi af, verða komið í hendur Rauða krossins til styrktar stríðshrjáðum í Írak. Björn Bjarnason dómsmálaráðherra sagði í samtali við Stöð 2 að hann hefði fyrst frétt af þessu máli í gær og beðið um að bent yrði á þá annmarka sem á því væru. Hann sagði að ekki væri á neinn hátt verið að bregða fæti fyrir Þjóðarhreyfinguna, heldur teldi hann sig klárlega vanhæfan og því væri ekki eðlilegt að hann hefði afskipti af því.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×