Innlent

Snjótittlinga í landgræðslu

Þúsundir snjótittlinga eru nú notaðir til landgræðslu, með því að fóðra þá á tólg sem berjum hefur verið hnoðað saman við. Þannig bera smáfuglarnir fræin um landið eins og þúsundir lítilla landgræðsluflugvéla. Kjartan Már Benediktsson umsjónarmaður staðarumhverfis í Gunnarsholti hefur verið að þróa þessa nýju aðferð við landgræðslu, sem er svo einföld að undrum sætir að hún hafi ekki verið notið fyrr, og engum komið til hugar að gera það í stórum stíl sem Kjartan nú gerir. Hann hnoðar kúlur úr tólg, bætir reyniberjum í kúlurnar og ber þær fyrir snjótittlinga. Þegar þeir hafa étið nægju sína fljúga þeir með farminn þar til þeir þurfa að létta á sér, og dreifa þar með fræjunum á stórt svæði. Kúlurnar eru bornar fyrir snjótittlingana á lítt grónu landi, vörðu fyrir beit, þar sem ætla má að reyniber geti spírað og orðið að tré. Kjartan segir þetta gamla aðferð sem hann hafi séð ömmu sína nota, en þetta hafi þó aldrei verið notað til landgræðslu áður. Hann segir einfalt fyrir hvern sem er að prófa þetta. Best er að nota folaldamör, en kindamör sé einnig mjög góð. Mörin er hituð þannig að hún flýtur, svo þegar hún fer að kólna og orðin um það bil 40 gráðu heit, er berjum eða berjahrati hnoðað saman við í töluverðu magni. Nota má hvaða tegund sem er af berjum, segir Kjartan, skógarþröstur og starri éti mest af berjum, en snjótittlingur sé meira fyrir berjahratið. Svo eru búnar til kúlur úr blöndunni, og bornar fyrir smáfuglana. Og Kjartan hefur þegar beitt aðferðinni á stórum svæðum við Gunnarsholt. Hann segist hafa hnoðað hrat úr krækiberjum og fuglar séu alveg trylltir í það. Hann segir það enga spurningu að þetta geti notast við landgræðslu í framtíðinni. Sé þetta sett á með 100 metra millibili verði þar ekkert nema krækiberjalyng eftir 1-2 ár. Hann segir að það mætti nota þetta mun meira til landgræðslu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×