Innlent

Flest börn send heim á Ísafirði

Allir ófaglærðir starfsmenn fjögurra leikskóla í Ísafjarðarbæ tilkynntu sig veika í dag og voru flest börn send heim aftur þegar þau mættu í morgun. Með þessu eru starfsmennirnir að mótmæla því sem þeir kalla seinagang bæjaryfirvalda við að greiða út leiðréttingu á launum. Þannig er að ákveðið var í kjölfar kjarasamninga árið 2001 að samræma kjör allra ófaglærðra starfsmanna á leikskólum landsins. Það var gert með því að vinna svokallað starfsmat og hefur það tekið tvö ár í vinnslu. Sveitarfélögunum voru svo sendar niðurstöðurnar í lok nóvember síðastliðinn. Það þarf að leiðrétta laun allt að 7000 starfsmanna aftur til desember 2002, og þar á meðal 360 starfsmanna í Ísafjarðarbæ. Ekkert bólar á greiðslunni, og ákváðu starfsmennirnir þess vegna að grípa til sinna ráða og tilkynna sig veika í dag. Margrét Jónsdóttir, trúnaðarmaður starfsmanna á leikskólanum Eyrarskjóli, segir að mjög lengi hafi verið beðið eftir starfsmati og fólk sé bara að minna á sig. Hún segist telja að vel hefði verið hægt að setja málið í forgang og borga starfsmönnum út fyrir jól. Hún segir að starfsmenn muni þó mæta til vinnu á morgun. Um þrjú hundruð börn eru á leikskólum bæjarins. Jóna Lind Karlsdóttir, sem er leikskólastjóri á Eyrarskjóli segist hafa skilning á aðgerðum starfsmannanna. Það gangi þokkalega að halda úti starfi í dag, en foreldrar hafi verið beðnir um að hafa börn sín heima í dag og flestir hafi tekið vel í það. Tekið hafi verið á móti þeim börnum sem alls ekki gátu verið heima við. Í dag séu 15 börn í húsi og þrír kennarar sjái um þau. Jóna segir ekki hafa borið á reiði meðal foreldra vegna málsins. Halldór Halldórsson, bæjarstjóri í Ísafjarðarbæ segir afar leitt að þessi staða sé komin upp. Hann segist ekki skilja aðgerðirnar, því að verkefnið sé í forgangi á skrifstofunni. Hann segir málið hins vegar flókið og snúa að mörgum starfsmönnum, alls 360 talsins. Þá hafi bærinn ekki fengið gögn vegna starfsmatsins í hendur fyrr en eftir 26. nóvember og því sé erfitt að afgreiða málið fyrir jól. Bæjaryfirvöld hafa því aðeins haft tæpan mánuð til að reikna út hversu mikið á að greiða hverjum og einum. Samkvæmt upplýsingum frá sambandi íslenskra sveitarfélaga eru aðeins fáein sveitarfélög búin að leiðrétta laun í samræmi við nýja starfsmatið.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×