Innlent

Ekki raunhæfar áætlanir

Ríkisendurskoðun telur að áætlanir stjórnvalda um að klæða fimm prósent láglendis skógi á fjörutíu árum séu úreltar og muni hvergi nærri standast, að óbreyttu. Í nýrri skýrslu Ríkisendurskoðunar um lagaumhverfi Skógræktar ríkisins og landshlutabundinna verkefna segir að þetta markmið muni ekki nást nema með auknum fjárframlögum og að nauðsynlegt sé að uppfæra áætlanirnar til samræmis við veruleikann, svo notað sé orðalag Ríkisendurskoðunar. Þá bendir stofnunin á að núgildandi lög um skógrækt séu síðan árið 1955 og því að mörgu leiti úrelt, meðal annars vegna breytinga á landnýtingu og búskaparháttum. Lögin hafi því litla þýðingu nema varðandi meginmarkmið Skógræktarinnar. Bent er á að síðastliðin fimmtán ár hafi skógrækt á vegum hins opinbera færst frá Skógrækt ríkisins til einkaðila undir umsjón landshutabundinna skógræktarverkefna en að Skógrækt ríkisins leggi nú megin áherslu á rannsóknir, umsjón með skóglendi í eigu hins opinbera og ýmiskonar ráðgjöf. Ljóst sé að umfang hinna ýmsu skógræktarverkefna hafi orðið mun minna en upphaflegar áætlanir stóðu til og sé ástæðan fyrst og fremst sú að Alþingi hafi veitt minna fé til þeirra en fyrirhugað var þegar lög um þau voru sett. Jón Loftsson skógræktarstjóri ríkisins segist í meginatriðum geta tekið undir skýrslu Ríkisendurskoðunar og bendir á að stjónrvöld hafi veitt minna fé til verkefnanna en til stóð. Nokkrum sinnum hafi einnig staðið til að breyta lögum um skógrækt ríkisins en þær fyrirætlanir hafi jafnan dagað uppi. Í ljósi þessa líti hann ekki á skýrsluna sem áfellisdóm yfir störfum Skógræktarinnar, heldur þarfa ábendingu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×