Innlent

Ólæti 5. árið í röð

Ólæti brutust út í Grindavík í nótt þegar allsgáðir fullorðnir karlmenn reyndu að kveikja í áramótabrennu Grindvíkinga. Þetta eru fimmtu jólin í röð sem skrílslæti brjótast út í bænum og vegna reynslu fyrri jóla var lögregla með viðbúnað í bænum í gærkvöld. Reynsla fyrri jóla var að skríllinn myndi safnast saman um miðnætti og kom það á daginn. Samkvæmt upplýsingum lögreglu í Keflavík reyndi hópur fólks fyrst að stafla upp brennu við Saltfisksetrið um miðnætti. Lögregla stöðvaði það og flutti eldsmatinn á brott. Fólkið hélt þá að áramótabrennunni við Litluvör og kveikti í henni. Slökkviliðinu tókst ekki að slökkva eldinn og brann kösturinn upp að mestu leyti. Þá var kveikt í lítilli brennu við Sólarvé og segir lögregla að þar hafi á annað hundrað manns safnast saman. Flest var fólkið á milli tvítugs og þrítugs og segir lögregla það athyglivert hversu margir fullorðnir karlmenn hafi staðið að þessum spellvirkjum og að margir þeirra hafi ekki einu sinni verið undir áhrifum áfengis. Þegar slökkvilið gerði sig líklegt til slökkva eldinn mætti það nokkurri mótspyrnu og þurfti lögregla að skerast í leikinn. Tveir voru handteknir en þeim sleppt síðar um nóttina. Það var síðan versnandi veðri að þakka að skríllinn lét sig hverfa en aðgerðum lögreglu lauk um klukkan 2 í nótt, og var lögregla með 6 bíla á staðnum þegar mest lét. Vegna þessarar skemmdarfýsnar fullorðins fólks í Grindavík er óljóst hvort þar verði áramótabrenna á gamlárskvöld.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×