Innlent

Enn óvissa um 28 Íslendinga

Tuttugu og átta Íslendingar hafa ekki látið vita af sér eftir jarðskjálftann í Suðaustur-Asíu. Langflestir þeirra sem er saknað eru á ferð í Taílandi. Fimmtán til tuttugu eru taldir vera á hættusvæði. Staðfest er að tuttugu og þrír ferðamenn frá Norðurlöndunum hafi látið lífið. Íslensk yfirvöld hafa unnið að því í allan dag í samstarf við danska utanríkisráðuneytið að hafa uppi á þeim Íslendingum sem saknað er. Haft hefur verið samband við alla íslenska ræðismenn á hamfarasvæðunum og þeir beðnir að aðstoða eftir fremsta megni Engar skipulagðar ferðir voru á vegum íslenskra ferðaskrifstofa til Taílands um hátíðarnar en ferðalangarnir hafa því farið með erlendum ferðaskrifstofum eða flogið og ferðast um á eigin vegum. Alls voru eitthundrað og tuttugu Íslendingar staddir í námunda við hamfarasvæðið og sumir þeirra voru mjög hætt komnir. Um hádegi hafði ekki náðst samband við um fjörutíu þeirra, þar af voru flestir í Taílandi. Eftir því sem leið á daginn fækkaði á þeim lista en jafnframt komu fram ný nöfn fólks sem var á ferðalagi á þessum slóðum. Um klukkan sjö í kvöld var tuttugu og átta saknað. Pétur Ásgeirsson, skrifstofustjóri í utanríkisráðuneytinu, segir að frá því í morgun hafi fengist upplýsingar um marga sem óvissa var um í gærkvöldi en á sama tíma hafi bæst við ný nöfn. Erfitt er að segja til um hversu margir eru á hættusvæði en þeir gætu verið á bilinu 15-20 að sögn Péturs. Hann segir engin áform uppi um að greiða fyrir brottflutningi Íslendinganna frá hamfarasvæðinu, enda engar vísbendingar borist um að þörf sé á því.  Hrafn Thoroddsen, söngvari og gítarleikari í hljómsveitinni Ensími, var staddur á strönd í Suður-Taílandi ásamt unnustu sinni þegar flóðbygjan reið yfir. Þau sáu allt í einu gríðarstóran „vegg“ af sjó koma æðandi að ströndinni og í kjölfarið hafi orðið uppi fótur og fit á svæðinu. Þau hlupu ásamt fjölda fólks upp á hæð sem er í grenndinni og þar með hafi þau verið úr allri hættu. Sögur hafi svo verið á reiki um að önnur bylgja væri væntanleg og segir Hrafn þessa óvissu hafa verið það versta sem hann upplifði í hamförunum.  Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra sendi í dag samúðarkveðjur til stjórnvalda þeirra ríkja sem verst urðu úti vegna náttúruhamfaranna. Hann segir óvenjulegt við atburðinn hversu margir Íslendingar séu á svæðinu en utanríkisráðuneytið hafi unnið gott starf við að hafa uppi á þeim. Íslensk stjórnvöld ákváðu nú síðdegis að veita fimm milljónum til mannúðar og neyðaraðstoðar á þeim svæðum sem verst urðu úti. Rauði krossinn hefur milligöngu um að koma fénu í réttar hendur. Rauði kross verður jafnframt með fund klukkan 20.30 í kvöld fyrir þá sem hafa áhyggjur af erlendum ríkisborgurum á flóðasvæðunum í Asíu. Á fundinum verður sagt frá náttúruhamförunum í Asíu og fólki sem ekki hefur tekist að hafa upp á ástvinum sínum verður gefinn kostur á að skrá nöfn þeirra hjá leitarþjónustu Rauða krossins. Fundurinn fer fram í húsakynnum Reykjavíkurdeildar Rauða krossins við Hlemm að Laugavegi 120. Túlkað verður á taílensku og ensku.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×