Innlent

Gengi dollara bjargað miklu

"Dollarinn hefur verið mun lægri en í fyrra og það hefur bjargað mörgum verktakanum frá því að lenda illa í því," segir Sigþór Sigurðsson, framkvæmdastjóri Hlaðbæ-colas, en fyrirtæki hans er eitt það umfangsmesta í malbikunarframkvæmdum hér á landi. Stígandi olíuverð í allt sumar hefur haft mikil áhrif á rekstur verktaka hér á landi þar sem útboð fara venjulega fram í byrjun ársins. "Við hér gerum ráð fyrir slíkum breytingum sem geta orðið á verði olíu en fáir bjuggust við slíkum hækkunum sem orðið hafa. Gróft reiknað hefur kostnaður aukist í rekstrinum vegna þessa um fimm prósent frá árinu á undan og það munar um slíkt hjá smærri fyrirtækjum." Sigþór er þess fullviss að lágt gengi dollarans sem vegið hefur á móti hækkun olíuverðsins hafi komið í veg fyrir stór áföll innan greinarinnar. "Á sama tíma í fyrra var dollarinn í 80 krónum en hefur verið kringum 70 í ár og það hefur bjargað því sem bjargað varð."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×