Innlent

Stærsta innisundlaug landsins

Stærsta innisundlaug landsins verður opnuð í Laugardal í næstu viku. Hún stórbætir aðstöðu til sundkeppni, æfinga og kennslu.  Nýja innilaugin er í byggingunni suðvestan við útilaugina og verður innangegnt í hana bæði úr núverandi búningsklefum sundlaugarinnar og líkamsræktarstöðinni Laugum við hliðina. Laugarkerið er 50 metrar á lengd og 25 metrar á breidd en yfir hana þvera er færanleg brú til að skipta henni í tvær laugar. Þá er þarna einnig heitur pottur en verið var að flísaleggja hann í dag. Laugin er hönnuð í samræmi við alþjóðlegar kröfur um keppnislaugar og eru bæði áhorfendabekkir og ljósatafla til að sýna úrslit úr sundkeppnum. Ljóst er að lögin gjörbyltir keppnisaðstöðu sundmanna og mun keppnisfólk hafa forgang að henni. Einnig verður hún nýtt til sundkennslu skólabarna. Almenningur mun þó jafnframt fá að nota laugina utan þess tíma sem hún er ekki nýtt til kennslu, æfinga eða keppni. Stefnt er að því að fyrsta sundmótið verði haldið þann 2. janúar. Og ekki er að efa að aðsókn að muni enn aukast í sundlaugarnar eftir að hin glæsilega innilaug verður opnuð eftir sex daga.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×