Innlent

Grindvíkingar æfir

Grindvíkingar eru æfir vegna skrílslátanna í bænum í fyrrinótt. Bæjarstjórnin lítur óspektirnar alvarlegum augum og ætlar að ræða við forsprakkana. Þeir kveiktu í áramótabrennu bæjarins en bæjaryfirvöld stefna að því að hlaða nýjan bálköst á næstu dögum. Það er um fátt meira rætt á meðal íbúa Grindavíkur en atburðina í fyrrinótt þegar hópur manna kveikti elda á þremur stöðum í bænum, þar á meðal í áramótabrennu bæjarbúa. Þetta eru fimmtu jólin í röð sem þetta gerist og þeir sem fréttamaður ræddi við í bænum í dag voru allir á einu máli: bæjarbúar væru „grautfúlir“ yfir þessu og að draga ætti skaðvaldana til ábyrgðar. Bæjarstjórn Grindavíkur lítur málið alvarlegum augum og ætlar að ræða það á fundi bæjarráðs á miðvikudag. Hörður Guðbrandsson, forseti bæjarstjórnar, segir ljóst að yfirvöld verði að vinna sig út úr málinu því þetta gangi ekki lengur. Það er altalað í bænum hverjir standa á bak við þessi leiðindi og segja bæjarbúar að þrír menn á þrítugsaldri eigi stærsta sök á því að kveikt hafi verið í áramótabrennunni. Forseti bæjarstjórnar segist vita hverjir voru þarna að verki og hann á von á að bæjaryfirvöld ræði við þá. Og Hörður er vongóður um að nú fari skrílslátum á jólum að linna í Grindavík, enda nóg af jákvæðum hlutum sem bærinn sem geti auglýst sig með. Bæjaryfirvöld stefna að því að hlaða nýjan bálköst á næstu dögum svo börn í Grindavík fái notið áramótanna eins og önnur börn á landinu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×