Innlent

Fjöldi ungbarna slasast

Tíu ungbörn hér á landi hafa slasast að undanförnu, þar af tvö alvarlega, með því að spyrna úr barnastólum í borðfjalir þannig að stólarnir hafa oltið um koll. Barnaslysavarnafulltrúi Lýðheilsustöðvar varar við slysum af þessu tagi. Það reynist ótrúlega mikill kraftur í fótum ungbarna, að minnsta kosti ef marka má fjölda þeirra slysa sem tilkynnt hafa verið að undanförnu þar sem allt niður í sjö mánaða gömul börn í barnastólum hafa spyrnt í borðfjalir, stólarnir oltið og börnin lent á höfðinu. Herdís Storgaard, barnaslysavarnafulltrúi Lýðheilsustöðvar, segir að þótt foreldrar treysti viðurkenndum barnastólum fullkomlega sé ljóst að hætturnar leynist víða. Allir stólar geti oltið og börn um eins árs aldur hafi spyrnukraft í kringum níu í fótunum. Hún bendir á að hægt sé að festa stóla með nælonböndum sem fáist í útivistarverslunum.  Herdís bendir á að það geti haft alvarlegar afleiðingar þegar barnastólarnir velti um koll. Frá því í lok október hafa tíu börn slasast með þessum hætti, þar af sex börn nú í desember. Tvö af þeim hlutu heilahristing.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×